Eftirmæli Benedikts Jóhannessonar um íslensku krónuna í Fréttablaðinu vöktu athygli. Benedikt hefur getið sér gott orð fyrir skarpskyggni og heiðarleika. Svo hefur hann húmor sem hentar vel minningargreinum. Hann hæðist að þeim sem sögðu bestu kosti krónunnar að geta lækkað laun alþýðunnar með gengisfalli. Hann hæðist að Davíð Oddsyni. Og hann hæðist að efnhagsstjórn síðustu áratuga, efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins.
Hvar stendur Benedikt þessi í pólitík? Er hann einhver Samfylkingargosi? Nei, hann er Sjálfstæðismaður í húð og hár. Það þarf ekki gráðu í neftóbaksvísindum til að vita það. Þeim frændum Birni, Bjarna og Benedikt var vitjað nafns af Sjálfstæðisflokknum. Þegar Benedikt óskar sér í lokin að Íslendingar láti krónuna róa gerir hann það eins og sannur Sjálfstæðismaður. Óskar þess að landsfundur Flokksins álykti um málið. Æðsta pólitíska samkunda landsins. Auðvitað er Benedikt Sjálfstæðismaður í blíðu og stríðu og skiptir engu þó hann sé ósammála pólitík Sjálfstæðisflokksins. Í góðum stjórnmálaflokki lætur maður ekki pólitík koma upp á milli manna.
Er fylgispektin við Sjálfstæðisflokkinn genetísk, x-DNA? Nei, fjöldi manna á, eða heldur sig eiga, veraldargengi sitt að þakka hlutdeild í þeim góða hópi sem innvígðir Sjálfstæðismenn eru. Fyrir hvern einn sem beinlínis er settur í sæti vegna flokkstengsla, og þeir eru margir, eru örugglega tíu sem út um allt í samfélaginu eru valdir fram yfir aðra vegna þessa gæðastimpils. Þar á meðal hinir fáu skarpskyggnu og heiðarlegu.
Þið munið ekki trúa þessu, en spillingin á Íslandi er vegna óeðlilegra tengsla stjórnmála við svokallaða stjórnmálaflokka.
30. desember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli