Orð forseta Íslands við stjórnarmyndun hafa vakið athygli margra. Bent er á hversu vandmeðfarið það er, þegar forseti bregður út af viðtekinni venju við embættifærslu á slíkri ögurstundu lýðræðisins sem stjórnarmyndun ætíð er. Stjórnarskrá lýðveldinsins kveður ekki á um í smáatriðum hvaða háttur skuli hér hafður á, en enginn þarf að velkjast í vafa um að menn hafa talið tryggt að forseti lýðveldisins myndi ætíð gæta mikillar varúðar á slíkum stundum og fylgja í þeim efnum þeirri hefð sem skapast að beztu manna yfirsýn í þroskuðu lýðræðisríki. Í þessu ljósi verður að skilja áhyggjur manna af því hefðrofi sem hér blasir við.
Hitt hlýtur þó að teljast enn meira áhyggjuefni, að ekkert bendir til annars á þessari stundu, en að stjórnmálamenn þeir, sem fengið hafa það vandasama verkefni að mynda ríkisstjórn á þessum ólgutímum í íslenzkri sögu, muni rjúfa áratuga langa hefð og mynda ríkisstjórn án samráðs við ritstjóra Morgunblaðsins. Er hægt að hugsa sér verra veganesti nokkurri ríkisstjórn?
27. janúar 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Það er nú ekki eins og þessi almennt orðuðu "selvföligheder" forsetanefnunnar gefi mikið tilefni. Það þarf einbeittan hneykslunarvilja til að gera sér mat úr þeim. Hitt er vitaskuld öllu verra samráðsleysið sem þú bendir á í þessum afbragðspistli.
Hsfðu þökk fyrir.
Skrifa ummæli