29. janúar 2009

Ábyrg íhygli miður ökuhæfra bílstjóra

Í kjölfar tveggja hörmulegra umferðaslysa vill Rannsóknarnefnd umferðaslysa benda sjúklingum á að "íhuga ökuhæfni sína af ábyrgð". Ekki síst ættu væntanlega heilabilaðir að hugsa sinn gang.

Svo er háttað á Íslandi, að það er eins og enginn geti svipt mann ökuréttindum vegna heilsubrests. Það hefur komið fyrir að alvarlega skert fólk, sem eindregið er ráðið frá akstri af lækni keyri samt. Lögreglunni er tilkynnt, en hún vill ekkert með tilkynninguna hafa. Enginn vill hengja bjölluna á köttinn. Þá er ekki minnst á öll þau tilvik þegar læknar vita ekki eða vilja ekki vita um akstur sjúklinga sinna. Íslenskum læknum er ekki uppálagt neitt sérstakt í þessu efni og engar reglur leggja á lækna að tilkynna um hættulega ökumenn. Að sjálfsögðu leysast lang flest mál farsællega, því fólk fer að ráðum maka, barna og sérfróðra hafði það ekki sjálft frumkvæðið.

Í Noregi, er læknum gert að banna fólki akstur að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Svo eiga þeir að senda tilkynningu til fylkislækins, sem fylgir málinu eftir. Íslendingar flýðu kannski Noreg undan svona leiðinlegum reglum, en er ekki samt rétt að hafa eitthvað aðeins strangara kerfi en að hið opinbera biðji óökuhæft fólk um að íhuga ökuhæfni sína?

Tímabundin hógværð

Bljúgir Framsóknarmenn skildu að kjósendur þeirra höfðu verið blekktir. Hin tiltölulega fáu atkvæði greidd Framsókn voru svo illa fengin að nýji formaðurinn taldi flokkinn ekki hafa umboð til að setjast í bráðabirgðastjórn fram að kosningum, en stakk heldur uppá að Framsókn verði falli rauðgræna ríkisstjórn. Jæja, nú þegar hyllir undir slíka stjórn koma Framsóknarmenn fram með dálítil skilyrði sem þeir vilja setja hlutleysi sínu. Fyrst er að nefna að Ísland fái nýja stjórnarská. Ha? Jú, flokkurinn sem ekki hefur siðferðislegt umboð til að leggja nýrri kreppustjórn til, segjum landbúnaðarráðherra, setur skilyrði um stjórnlagaþing.

Stjórnlagaþing! Mæltu manna heilastur Sigmundur. Gaman þegar bæði er hægt að velja þá kosti sem eru þægilegastir og vinsælastir. Bara verst hvað það fer illa með útlitið að taka svip af Glistrup.

27. janúar 2009

Íslenzk stjórnmálafræði fyrir byrjendur

Orð forseta Íslands við stjórnarmyndun hafa vakið athygli margra. Bent er á hversu vandmeðfarið það er, þegar forseti bregður út af viðtekinni venju við embættifærslu á slíkri ögurstundu lýðræðisins sem stjórnarmyndun ætíð er. Stjórnarskrá lýðveldinsins kveður ekki á um í smáatriðum hvaða háttur skuli hér hafður á, en enginn þarf að velkjast í vafa um að menn hafa talið tryggt að forseti lýðveldisins myndi ætíð gæta mikillar varúðar á slíkum stundum og fylgja í þeim efnum þeirri hefð sem skapast að beztu manna yfirsýn í þroskuðu lýðræðisríki. Í þessu ljósi verður að skilja áhyggjur manna af því hefðrofi sem hér blasir við.

Hitt hlýtur þó að teljast enn meira áhyggjuefni, að ekkert bendir til annars á þessari stundu, en að stjórnmálamenn þeir, sem fengið hafa það vandasama verkefni að mynda ríkisstjórn á þessum ólgutímum í íslenzkri sögu, muni rjúfa áratuga langa hefð og mynda ríkisstjórn án samráðs við ritstjóra Morgunblaðsins. Er hægt að hugsa sér verra veganesti nokkurri ríkisstjórn?

Skríddu upp úr öskutunnunni

Sjálfstæð hugsun íslenskra fjölmiðla endurspeglast ágætlega í þeirri frétt að erlendir fjölmiðlar reki stjórnarslit á Íslandi til götumótmælanna. Vá! Það voru líka erlendir fjölmiðlar sem lýstu lömun stjórnvalda gagnvart yfirvofandi hruni hins fáránlega stóra bankakerfis sem pólitískri gíslatöku bankanna. Vahá!

Íslenskir fjölmiðlar hafa enn ekki brotist undan forræði flokkanna. Þeir treysta sér ekki til að draga eigin ályktanir, hversu augljósar sem þær kunna að vera. Þeir tína ofan í okkur nestið sem stjórnmálaflokkarnir hafa smurt, flatbrauð með slátri frá einum, vínarbrauðsenda frá öðrum.

Það er talað um að hafa asklok fyrir himin. Íslenskir fjölmiðlar eiga enn eftir að skríða upp úr askinum. Eiga enn eftir að skríða upp úr öskutunninni.

25. janúar 2009

Pólitískur hvítasunnudagur

Ég vaknaði snemma í morgun með ungum börnum. Áttafréttirnar tíðindalitlar og meðan börnin sátu stillt yfir sjónvarpinu notaði ég tíman til að skrifa blogg um ríkisstjórn sem er fallin, hvað sem þingstyrk liði. Hún nyti ekki lengur nokkurs trausts, væri framkvæmdavald sem ekkert gæti framkvæmt. Svo birti af degi og okkur langaði út í garð og pistilinn beið. Eftir góða stund í garðvinnu átti granni minn leið úr húsi og vinkaði til mín. Hann sagði mér frá afsögn viðskiptaráðherra. En það var fyrst eftir aukafréttatímann í hádeginu að ég áttaði mig á hvílík stórtíðindi hér væru á ferð.

Sá ráðherra sem þarna talaði virtist allt annar maður en sá sem áður kom fram undir þessu nafni í sama líkama. Þessi stjórnmálamaður sagði hluti sem aldrei hafa áður heyrst í íslenskri pólitík. Björgvin G. Sigurðsson sagði sunnudagsmorguninn 25. janúar að hann segði af sér m.a. því hann bæri sinn skerf af pólitískri ábyrgð á illu ástandi landsins. Til samanburðar talar Geir H. Haarde þessa dagana um pólitíska ábyrgð sem felst í því að hann og ríkisstjórnin megi ekki segja af sér. Björgvin sagði að ríkisstjórninni hefði mistekist að afla sér trausts meðal þjóðarinnar og því gæti hún ekki komið nauðsynlegustu verkum í kring. Hann segði því af sér, m.a. til þess að rýma fyrir öðrum. Til samanburðar sögðu bæði Össur og Þorgerður Katrín hvor í sínu lagi þetta: Ef ríkisstjórnin hefur gert mistök, þá felast þau í því að hafa ekki gumað nægjanlega af afrekum sínum.


Byltingin heldur áfram að birtast í nýjum og nýjum myndum. Nú síðast í þessu ávarpi viðskiptaráðherra, sem markar tímamót í stjórnmálasögunni. Björgvin segir af sér, ekki eins og Framsóknarmaður með hnífasett í bakinu, heldur barinn burt af slætti pottasettanna. Þá allt í einu fer hann að tala mannamál. Skilur hvað er pólitísk ábyrgð. Skilur hvað leiðtogi er. Kannski hann hafi skilið að gamla tungumálið hans er dautt og merkingarlaust. Og það er hugsanlegt nú hafi stjórnmálamaður fattað, að grátbeiðni fólks um upplýsingar er vegna þess að tungumál stjórnmálanna er því óskiljanlegt babl. Um leið og íslenski bankababelsturninn hrundi, í byrjun október 2008, hættu landsmanna að skilja undarlegt tungumál stjórnmálamannanna, skilja nú bara mannamál.

Viðbrögð almennings við afsögn viðskiptaráðherra virtust á einn veg. Þetta þótti rétt. Ýmsir pólitískir bloggarar og stjórnmálamenn eins og Steingrímur Sigfússon, létu sér hins vegar fátt um finnast. Sáu í þessu einhver persónuleg sniðugheit eða fannst þetta lítið og seint. Seint kom það, það er rétt. Og lengi má velta sér uppúr sálarfriði, iðrun og siðbót persónunnar Björgvins G. Sigurðssonar, en frétt dagins snérist ekki um það. Hún snýst um nýja hugsun, nýtt tungumál sem allt í einu heyrðist.

Það segir sína sögu að þeir sem eru innvígðir í íslensk stjórnmál skilji ekki aðal tíðindi dagsins. Þau voru á útlensku.

23. janúar 2009

Draumur í framboði

dv.is segir hugsanlegt að Sjálfstæðisflokkurinn slíti stjórnarsamstarfinu nú í hádeginu. Það væri frábært. Svo segir í sömu spáfrétt að þannig gæti Flokkurinn komið sök á upplausninni á stjórnarheimilinu yfir á Samfylkinguna sem stæði uppi með 17 prósenta fylgi og "svarta pétur" .

Líklega vilja allir kjósendur Samfylkingar í seinustu kosningum og næstum allir "virkir meðlimir" þess sama flokks grundvallarbreytingar á stjórnskipun þessa lands. Og þeir eru reyndar miklu, miklu fleiri. Þessir kjósendur vilja líka aðra skiptingu auðs og byrða í samfélaginu. Var fólk ekki að kjósa lýðræði, siðbót, jöfnuð? Þetta fólk kaus draum. Kjósendur Flokksins kusu valdhafana. Vildu meira af því sama.

Svarti-Pétur Samfylkingar var að fara í stjórn með Flokknum segja sumir. Annars konar stjórn hefði litlu breytt, segi ég. Ekki til langframa. Kerfinu sjálfu þurfti að bylta, kerfinu sem nú hefur hrunið undan sjálfu sér. Svo nú getum við byrja aftur frá grunni.

Heimur Flokksins er hruninn, en draumurinn er ennþá til. Nú er ekkert annað til, það er bara hægt að kjósa draum. Hvort nafnið Samfylking lifir eða deyr skiptir engu máli. Við þurfum nýja stjórnmálaflokk. Tækilega séð myndi það spara tíma og útúrsnúninga að geta notað bréfsefni og skrifstofuaðstöðu Samfylkingar fram að kosningum.

Beðið

Gagnrýnendur segja nú að ríkisstjórnin hafi ekki brugðist við ástandinu, veiti ekki forystu, tali ekki til þjóðarinnar. Geir segir að fólk verði að sýna þolinmæði, það er svo skammt síðan hrunið varð. Hér er gömul bloggfærsla mín frá 4. Nóvember. Hvað er nýtt? http://hjabeck.blogspot.com/2008/11/biin-er-verri-en-allt-sem-bur-okkr.html

22. janúar 2009

Lifi byltingin!

Byltingin hefur brotist út. Byltingin varð um leið og kerfið hrundi, en nú er hún orðin sýnileg á götunum, dansar undir takföstum potthlemmaslætti kring um varðeld reiðinnar. Stemmingin á Þjóðleikhúströppunum í gærkvöldi var þjóðsagnakennd. Fólk dillaði sér undir rythma dósatromma og heimagerðra lúðra fyrir framan biðröðina í Þjóðleikhuskjallarann, þar sem Samfylkingin fundaði. Þetta hefur aldrei áður sést á Íslandi. Á bekk hinna brostnu vona, lága steinveggnum við austurdyrnar, þar sem óparaðir nátthrafnar komu saman eftir böll í Laranum á árum áður, sat óeirðalögreglan með hjálma og skildi. Aldrei áður hafiði séð slíkt á Íslandi. Allt er breytt. Það gamla er hrunið. Það skiptir engu máli hvað forsætisráðherran segir.

Það vill enginn endurtaka pólitík síðustu tuttugu ára. Það vill enginn halda lífi í hinu pólitíska kerfi á Íslandi. Það vilja allir flokkana dauða, stjórnmálaflokkana í sinni núverandi mynd. Þeir hrundu með öllu hinu. Heitir það ekki bylting?

20. janúar 2009

Mótmælin miklu

Mótmælin miklu í dag settu svip sinn á heimilislífið. Börnin horfa aldrei þessu vant á fréttirnar með athygli. Það komu gestir í kvöldmat og þeir voru varla komnir inn úr dyrunum þegar mótmælafundur hófst í stofunni. Unnsteinn, 5 ára, gekk í hringi og kvað fast að: "Ríkisstjórnin víki. Ríkisstjórnin víki. Ríkisstjórnin víki." Ég stóð fram í eldhúsi að útbúa sódastrím oní gestina. Til að lægja mótmælaöldurnar í stofunni brá ég á gott ráð sem ég hafði í hendi. "Unnsteinn, viltu gera sódastrím?" Drengurinn kom á harðahlaupum, tók undir sig stökk, upp í stól, lagðist af öllum þunga ofaná sódastrímtækið og þrýsti takkanum niður. Þegar tækið gaf frá sér eimpípuvælið kunna öskraði strákur af öllum lífs- og sálarkröftum: "Gas! Gas!"

16. janúar 2009

Lærisveinn galdrameistarans

Nú setja menn á langar ræður og rifja upp hvernig stjórnmálamenn og eftirlitsmenn kerfisins lögðu nótt við dag til þess að fullvissa heiminn um að allt væri í himnalagi í íslenskum bankaheimi. Hvernig blístrað og baulað var á viðvörunarraddir. Hvernig landsmenn voru blekktir til að halda að allt væri í lagi, þó allir með einhverja fjármálaþekkingu máttu vitað annað. Gott og vel, en af hverju er þetta ekki sagt á þann einfalda hátt sem best lýsir atvikum? Bankarnir uxu Íslendingum yfir höfuð. Bankarnir stýrðu landinu, sögðu stjórnmálamönnum fyrir verkum, létu eftirlisstofnanirnar snatta fyrir sig og urðu svo sjálfir stjórnlausir.

Ef ég ætti að persónugera orsakir hrunsins í einum manni, þá væri það í lærisveini galdrameistarans. Stráknum í ævintýrinu sem stalst til að magna galdur úr kveri meistara síns sem hann hafði svo ekki kunnáttu til að kveða niður. Kústurinn frábæri sem sópaði gólfið sjálfur, einkavæddi kústurinn, lúbarði að lokum skapara sinn.

Ábyrgð

Allsstaðar er spurt hver beri ábyrgð. Kannski væri betra að spyrja hvernig þetta gerðist. Svo má spyrja hver lék hvaða hlutverk. Þegar menn deila um hver beri ábyrgð gætir stöðugt orðaruglings. Að bera ábyrgð á einhverju af því manni er falin ábyrgð er annað en að vera valdur að einhverju, (þó það sé stundum kallað að bera ábyrgð á). Valgerður frá Lómatjörn, einn af aðal arkitektum hrunsins, segir Framsókn ekki bera ábyrgð á hruninu, því flokkurinn var ekki í stjórn þegar það varð. Já, já. Einmitt það.

13. janúar 2009

Hvað er Samfylkingin að pæla? Skemmtileg gestaþraut

Margir eru forviða á formanni Samfylkingarinnar, hvað er hann eiginlega að pæla? Hvers vegna gerir Samfylkingin sig að hækju í eyðimerkurgöngu Sjálfstæðisflokksins? Ég hef spurt marga spjallara og lesið færslur. Sumir óttast að eitthvað ógnvænlegt eigi enn eftir að koma í ljós, eitthvað sem girði fyrir stjórnarslit á þessum tímapunkti. Aðrir halda að Samfylkingin hafi á örskömmum tíma orðið valdafíkn dauðans að bráð. Ýmist virðast halda að ISG sé óstarfshæf vegna veikinda. Jón Kaldal tekur málið upp í leiðara Fréttablaðsins í dag http://www.visir.is/article/20090113/SKODANIR04/154435679/-1. Hann leitar skýringa í kenningu Benedikts Jóhannessonar: ISG vilji feta út úr ógöngunum inn í ESB með ervu í stað dauðrar ískrónu. Þar með yrði þessi óvinsæla ríkisstjórn orðin tímamótastjórn.


Er þetta sennileg kenning? Já og nei. Það er ekki sennilegt að Ingibjörg Sólrún deili því lífsviðhorfi með Benedikt að landsfundur Sjálfstæðisflokksins sé æðsta og merkasta samkoma landins. Að sá sem nær að knýja fram stefnubreytingu hjá Sjálfstæðisflokknum verði ódauðlegur af verkum sínum, jafnvel þó krati sé. Og það má hundur í haus minn heita ef Samfylkingin skilur ekki að þessi ríkisstjórn á ekki framtíðina fyrir sér.


Hins vegar kann IGS að meta það svo að evruvæðing sé bráðamál og forgangsatriði. Evra verði hins vegar ekki tekin upp í óþökk ESB. Það dugar þó væntanlega að byrja aðildarviðræður, þó samingur um inngöngu hljóti að hafa fyrirvara um samþykki þjóðar. Samfylkingin neyðist því til að hanga í stjórninni fram yfir frægan landsfund Sjálfsæðismanna, sem hún hefur þó fengið flýtt. Strax í kjölfar hans yrðu þá annað hvort stjórnarslit ef ESB er þumall niður eða, ef þumallinn upp, virkjuð áætlun um snarlega upptöku evru. Með þetta í höfn gæti komið los á Samfylkinguna. Hún mun réttlæta stjórnarsetuna með þessari "neyðaráætlun" sinni. Sjálfstæðisflokkur vill hins vegar auðvitað að draga málið á langinn, eins og GHH lagði til með "sáttatillögu" um þjóðatkvæðagreiðslu um aðildarviðræður. Þetta er slappur leikur, enda staðan léleg. Samfylking hefur tak á Flokknum, sem er þverklofinn í málinu í þokkabót. Svo ber hann með sér að vera fyrir Flokkinn frekar en þjóðina.

Eftir að hafa til gamans glímt við gestaþraut dagsins, má nefna næstu þraut. Hún er þyngri. Hvað verður um þessa stjórnmálaflokka?

11. janúar 2009

Hættu. Þetta er vonlaust.

Heilbrigðisráðherra er eins og Roy Roggers í lagi Halla og Ladda. Birtist skyndilega sætur og klár með fyrstu sparnaðartillögurnar í ár. Hafnarfirði er skotið til Keflavíkur, Hornafirði til Selfoss, Sauðárkróki til Akureyrar og Patreksfirði til Skutulsfjarðar. Blaðamannafundi ráðherrans á Hilton hótelinu er hleypt upp af hafnfirsku skurðstofufólki í grænum sloppum með höfuðskýlur. Vantaði bara maska til að hylja með andlitið og hnífa til að berjast með. Það verður næst, lá í loftinu. Viðbrögð almennings eru með sama bragði. Hafnfirðingar púa á ráðherrann á borgarafundi. "Við erum þúsund, þú ert einn. Þú verður drepinn ungi sveinn". Hringinn í kring um landið, alls staðar sömu viðtökurnar hjá þolendum aðgerðanna. Ráðherranum er kastað út úr búllunni í stórum boga.

Þrátt fyrir annálaða ættrækni Sjálfstæðisflokksins gleymdi ráðherrann að hafa mikilvægustu ætt landsins með í ráðum, Heimamannaættina. Þessu var bara slengt framan í Hafnfirðinga, Hornfirðinga, Sauðkrækinga, Barðstrendinga og alla hina. En hengjum ekki heilbrigðisráðherra fyrir forsætisráðherra. Svona eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í öllum málum. Enginn veit fyrr en allt í einu. Talar og hagar sér eins og einhver karakter hjá Ladda.


En þrátt fyrir öll lætin hafa sparnaðartillögur heilbrigðisráðuneytisins samt varla litið dagsins ljós ennþá. Nýju heilbrigðislandafræðinni er ekki ætlað að spara nema fimmtunginn af því sem ráðuneytinu var sett fyrir. En þar sem ráðherrann magalendir nú í forinni fyrir utan búlluna getur hann hætt að telja. Þetta er vonlaust. Næstu tillögum verður mætt af enn meiri hörku, enn meiri reiði. Það verður vonlaust verk að spara áætlaða upphæð í heilbrigðiskerfinu án ófriðar. Svo eru það félagsmálin og menntamálin líka.


Þjóðin er reið og hún treystir ekki ríkisstjórninni. Hvernig ætti nokkur svo sem að treysta henni? Sjálfstæðisflokkurinn auglýsti fyrir kosningar að efnahagsstjórnin væri stærsta velferðarmálið. Í ljósi reynslunnar af þessari rómuðu efnahagsstjórn er stærsta velferðarmálið að koma flokknum frá völdum. Til að bæta gráu ofaná svart hefur ríkisstjórn ekki einu sinni sýnt vilja til að bæta ráð sitt og ná til baka einhverju trausti, en góð byrjun hefi verið að hætta að segja ósatt og opinbera almenningi aðgerðaráætlun sína.

Ríkisstjórninni er ógerlegt að framkvæma það sem hún ætlar sér og hefur lofað lánveitendum sínum. Öll þjóðin er orðin að mótmælendum. Hún kemur ekki öll saman á Austurvöll á hverjum laugardegi, en hún mótmælir hverjum aðgerðum stjórnarinnar sem á henni brenna. Það ríkir engin sátt um erfiðan niðurskurð. Þessi ríkisstjórn verður að hætta. Þetta er vonlaust.

6. janúar 2009

Tjásureiði

Það væri verðugt rannóknarefni að stúdera reiðina sem ólgar á bloggum þessa dagana. Ekki í pistlunum heldur í athugasemdunum, tjásunum eins og lagt var til að það héti. Ég er með öðrum orðum að hugsa um tjásureiði. Margir formæla, uppnefna, öskra og bölva. Sumir eru eflaust reiðir vegna eigin aðstæðna, reiðir og örvæntingarfullir. Slíkt ástand hefur áhrif á orðaforðann og verður maður eiginlega bara að sætta sig við það. Sumir kunna að brenna af réttlátri reiði, er misboðið og nota bölv og ragn til að kveða fastar að orði. Þetta er auðvitað misskilið stílbragð, því formælingar hitta formælandann frekast fyrir. En sumir eru bara sömu þröngsýnu fúlmennin og þeir hafa alltaf verið. Skáka í skjóli ástandsins og gera stykki sín í tjásum. Maður kannast svo sem við svona orðbragð í pólitíksu þrefi, en fyrir daga bloggsins var því ekki fjölmiðlað. Smjörklípur fótgönguliðanna hafa alltaf verið fyrirlitlegar.

Það eru margir reiðir og eðlilegt að þess gæti í skrifum fólks. Bestu pistlarnir eru jú fullir af krafti reiðinnar, en skítkast er dapurlegt og gerir mig svartsýnan.

1. janúar 2009

Ávörp, skaup og íslensk tunga

Frábært áramótaskaup. Andrúmsloftið er svo afkáralegt að skaupið er besti fréttaskýringaþáttur ársins. Innhaldslaus malandi stjórnmálamanna, þversagnir og ósannsögli komust vel til skila. Þjóðin ringluð og reið. Helvítis fokking fokk og ævintýri eru að gerst samtímis.

Áramótaávörpin voru ömurleg eins og allir vissu fyrir. Lamaðar afsakanir heyrðust muldraðar án þess að nánar væri tilgreint hvað átt væri við. Svo kom hjal um réttlæti, mikilvægar rannsóknir og lærdóma. Nákvæmlega eins og áður, orð á skjön við gerðir sem róa engan en rugla alla. Reyndar var ekki annað að skilja á forsetanum en að hann viðurkenndi að í mótmælunum fælist vilji þjóðarinnar og krafa um breytingu á sjálfu kerfinu. Vantraust á núverandi pólitík. Hann nefndi í lokin óljósa hugmynd um nýjan þjóðarsáttmála sem yrði borinn undir atkvæði. En þetta eru bara enn fleiri orð út í tómið. Forsetinn gengur bara lengra en pólitíkusarnir í orðum. Skákar í því skjóli að hafa ekki vald til framkvæmda. Engar vísbendingar eru um að neinar viðhróflanir eða breytingar sem skipta máli muni eiga sér stað. Yfirlýsing forseta dregst því í sama dilk og ruglandi stjórnmálamannanna.

Yfirbragð og orðfæri áramótaávarpa var með algerlega hefðbundnu sniði. Þessi talandi er dauður. Hafði aldrei svosem mikið gildi, en eftir hrunið er hátíðlegt yfirborðssnakk skreytt með ljóðatilvitnunum ekki bara absúrd heldur móðgandi í þokkabót.

Nýjir tímar krefjast nýs máls, mannamáls. Klisjan um land, þjóð og tungu sem er fastagestur áramótaávarpanna á kannski eftir að rætast skilvíslegar og fyrrenmargurbjóstvið.