30. nóvember 2008

Ráðamenn bera ábyrgð á landinu

Stjórnmálamenn bera ábyrgð á Íslandshruninu, þeir stjórnmálamenn sem verið hafa við völd. Hvernig dettur mönnum í hug að tala öðruvísi? Skipstjóri ber alltaf ábyrgð á strandi. Æðsta skylda hans er að halda skipinu á floti og vernda líf skipverja. Æðsta skylda þings og ríkisstjórnar er að verja grunnstoðir og gangverk samfélagsins og þar með hag landsmanna. Þetta hefur brugðist jafn áþreifanlega og óvéfengjanlega á Íslandi og skip strandar. Þeir sem neita því að ráðandi stjórnmálamenn beri ábyrgð skilja ekki hvað ábyrgð er.

Auðvitað geta margir aðrir átt að bera ábyrgð. Hver einstaklingur ber ábyrgð á því sem hann er settur yfir og hver ber sína siðferðislegu ábyrgð sem maður og hluthafi í samfélaginu. Og auðvitað geta aðstæður verið ólíkar. Sumir kunna hafa drýgt glæpi og sýnt fullkomið siðleysi, en aðrir verið góði viljinn út í gegn og gert allt hvað þeir gátu til að forða slysinu. Á gerðum sínum ber hver maður ábyrgð, en þar að auki ber maður ábyrgð á því sem manni er falið að vernda.

Ábyrðin á skipinu er grundvallareðli skipstjórastarfsins. Ábyrgðin á landsstjórninni er á sama hátt grundvallareðli ráðherradómsins. Alþingi er svo útgerðin, sem ætti að ráða og reka sína kapteina.

"Tóm sósa", sagði þingmaður um lög sem hann hafði greitt atkvæði að beiðni flokksformannsins, en svo lesið fyrir forvitni eftir á. Er nú sósan farin að slettast víðar en maður hugði, ef fólk heldur að ráðherrar beri ekki ábyrgð, þegar innviðir landsins brotna og hrynja saman.

27. nóvember 2008

Hvar er valdið?

Hvar er valdið? Gæfi alvitur andi manni færi á einni spurningu um hrun landins, væri hún þessi. Hefur fólkið tekið valdið í sínar hendur með mótmælum? Þau hafa engan árangur borið utan að frelsa Bónusfánaberann. Hefur ríkisstjórnin valdið? Ekki Samfylkingarráðherrarnir, að minnsta kosti. Þeir geta ekki einu sinni látið reka þrjá embættismenn, sem þeir vilja burt. Samt standa þeir með pálmann í höndunum vegna fyrirlitningar fólks á Sjálfstæðisflokknum. Hefur þá forsætisráðherran valdið, sem misst hefur alla tiltrú því hann veldur engu? Hafa fjárglæframálamennirnir völdin, sem eru fallít með skuldir upp á hundruði eða þúsund milljarða? Hefur Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn völdin, sem aldrei skiptir sér af pólitík? Hefur norskur herkænskuráðgjafi, sem búinn er að segja af sér völdin? Og svo að það sé nefnt, þó fáránlegt hljómi, hefur Alþingi völdin?

Enginn virðist hafa völdin. Ekki í augnablikinu. Hin formlegu völd, hversu veikum fótum sem þau standa, verða hins vegar ekki látin af hendi fyrr en í fulla hnefana. Handhafar þeirra eru ekki viðræðu um að koma til móts við eindregnar óskir landsmanna. Ríkisstjórninni allt...... eða ekkert.

25. nóvember 2008

Vonandi er leðjuslagurinn byrjaður

Jóni Ásgeiri verður yljað í Brennpunkt norska rískissjónvarpsins. Baugsmannasögu er nú slegið upp á vef NRK http://www.nrk.no/programmer/tv/brennpunkt/1.6322990. Þessa frásögn hafa Íslendingar áður heyrt hjá Sullenberg og Jónínu, sem sagt hafa frá kynnum sínum af Baugsmönnum. Kynnum sem byrjuðu í svo mikilli vinsemd, en snerust upp í fjandskap.

Athyglisvert er að sjá mjög snör viðbrögð ýmissa íslendinga sem gefa umsagnir á heimasíðu NRK. Þeir vísa þegar til stríðsins milli Davíðs og Baugsmanna og efast um vinnubrögð NRK. Telja að Brennpunktfólkið hafi fallið fyrir slefburi. Sem ný heimfluttum frá Noregi kæmi mér á óvart að þessi þáttur væri illa unnin. Brennpunkt fannst mér góður.

En er þetta ekki bara byrjunin á skemmtilegheitunum? Sjáum við ekki hér fingraför hins norska Aristotelesar sem kennir At-Geir Haarde herkænskuna og ætlar að gera hann að Alexander Mikla?

Almenningur er gáttaður á aðgerðaleysi stjórnvalda og skilur ekki hvers vegna ekki er hróflað við neinu,það gæti breyst. Vonandi er leðjuslagurinn byrjaður. Eigi að gera Jón Ásgeir að syndahafri ófaranna munu Baugsmenn svara. Samtryggingin, omerta, sem Egill Helgason talaði um (http://eyjan.is/silfuregils/2008/11/16/er-hannes-the-fall-guy/) brestur. Þá flýtur hroðinn upp í stórum stíl. Þetta er nauðsynlegur kafli í framvindu sögunnar um hrun Íslands. Það eru sameigninlegir hagsmunir allra, sem eitthvað hafa að fela að garfa ekki í málunum, en forsendan er að allir geti haldið áfram. Það sé eitthvað á því að græða að þegja.

23. nóvember 2008

Örlagaríkur laugardagur

"Af jarðarinnar hálfu/byrja allir dagar fallega" og svo var um gærdaginn. Nálægt hádegi fór ég á hægu skokki um um friðsælar götur og fann með mér einhvern fyrirboða um að nú færi að fjara aftur. Mótmælin í samfélaginu væru í rénun, menn sæju að krafan um kosningar í vor væri óraunsæ og myndu gefast upp á því að bifa níðþungri ríkisstjórn í vörn fyrir kerfinu, embættismönnunum og pukrinu. Kannski var það fyrirboði um miðstjórnafund Samfylkingarinnar sem fór að mér, en svo sannarlega ekki fyrirboði um aðra atburði dagsins.

Mótmælafundurinn í miðbænum var fjölmennari en áður, eins og verið hefur hvern laugardag. Ræðurnar verða líka beittari og áleitnari. Svo urðu þessir merkilegu atburðir við lögreglustöðina við Hlemm, þegar hundruðir manna sóttu að lögregluliðinu til að fá leystan úr haldi fánabera mótmælenda. Þó honum væri haldið inni á grundvelli vangoldinnar sektar, dettur víst engum í hug að andmæla því að tilgangur handtökunnar tengdist mótmælunum. En hver það var sem hjó á hnútinn með því að segjast greiða sjálfur vissu menn ekki. Í dag segir DV að það hafi verið háttsetturm maður í dómskerfinu. Var það einhver inni á lögreglustöðinni? Var þetta að undirlagi ráðherra, kannski hann sjálfur? Fánaberanum var sleppt út í fagnandi fjöldann.

Hann var þéttur, þátturinn hjá Silfur-Agli. Ólíkt fólk, en málflutningurinn er skýr og hangir saman. Efnahagskreppan, bankakreppan er bara hluti vandamálsins. Það ríkir pólitískt upplausnarástand með hrópandi vantrausti á ríkisstjórn og Alþingi. Þær litlu fréttir sem berast innan úr kerfinu segja að ekkert hafi breyst. Sömu bankamenn að afgreiða sömu kúnna með sama siðferðinu. Ekkert er á seyði varðandi rannsókn á vafasömum fyrri viðskiptum. Mótmælendur koma fram sem skynsamlegt og yfirvegað fólk, en málflutningurinn er róttækur. Valdið er fólkið! Þingið og ríkisstjórnin hafa það bara að láni var sagt. Nú er valdið að birtast á götunum og á fjöldafundunum og mun láta til sín taka. Það kemur fram fólk sem greinilega er knúið áfram af aðstæðunum, það getur ekki setið aðgerðalsut hjá. Sú skynsamlega ákvörun Nóvemberhópsins að sneiða hjá stjórnmálamönnum og hagsumnajöxlum hefur skilað árangri. Fram er komin trúverðug hreyfing almennings sem talar æ skýrara máli. Stjórnarflokkarnir eru komnir í nauðvörn án þess að hinir flokkarnir hafi við það fengið ókeypis far. Sjálfstarust mótmælenda eykst jöfnum höndum og þeir hafa sýnt hvers þeir eru megnugir.

Mótmælin munu augljóslega stigmagnast, þangað til þau bera áþreifanlegan árangur. Enn sem komið er hefur fólk sýnt mikla friðsemd, en undirniðri kraumar. Dragi ríksisstjórn og Alþingi ekki lærdóm af atburðum helgarinnar, verða harðari átök og verri á ábyrgð stjórnmálaforystunnar. Viðvaranir hafa nú heyrst og kröfurnar gufa ekki upp.

Tilvitnunin hér í upphafi er byrjunin á ljóðinu eitt, fremsta ljóði í fyrstu ljóðbók Péturs Gunnarssonar. Svona er áframhaldið: "Þolinmóð snýst hún og snýst/með tréin og höfin og vötnin/eyðimerkurnar og eldfjöllin/okkur tvö og ykkur hin/og öll dýrin" Þolinmæði jarðarinnar undir stjórnmálaflokkunum er þorrin og hún snýst ekki lengur.

22. nóvember 2008

Safnið stigum, kæru ráðherrar

Ingibjörg kona mín innti mig eftir efni blaðamannafundar Geirs og Sólrúnar í gær. Sem þriðja og síðasta lið nefndi Geir upplýsingavef forsætisráðuneytis. Alltaf að upplýsa almenning, það er móttóið! Af hverju er ekki gerður upplýsingavefur fyrir ráðherra og þigmenn til að upplýsa það fólk um hvernig fólk hefur það svaraði Ib.

Þetta er frábær hugmynd. Vefur handa framkvæmdavaldi gæti líka birt spurningar sem brenna á fólki. Ég sé að ýmsir bloggarar, þmt Egill í Silfrinu, eru að safna slíkum spurningum í sarpinn.
"Safnið stigum, kæru ráðherrar. Það verður hakað við hvert fullnægjandi svar".

21. nóvember 2008

Sérðu það sem ég sé?

Bókin "Sérðu það sem ég sé" er á náttborðinu. Snilldarlega vel skrifaðar sögur Þórarins Eldjárn um mörk veruleika og skáldskapar. Ekkert járntjald þarna á milli, en kalt stríð engu að síður. Ef ég ætti að senda ríkisstjórninni póstkort, væri þetta spurningin. Sérðu það sem ég sé? Ríkisstjórnin svarar um hæl: Látum sem ekkert sé. Gagnrýnin eins æpandi og hún verður hjá þessari þýlyndu þjóð og hún kemur úr öllum höfuðáttum gömlu stjórnmálanna. Allt venjulegt fók sér ekki bara peningakreppuna sem hið opinbera talar um, fólk sér samfélagshrun. Fólk sér kerfi spillingar afhjúpað. Spilltar peningastofnanir, spillt stjórnmál, spillt og útvaðið orðspor Íslands. Samt á sama pólitík, sömu fjármálamálamógúlar, sömu pólitíkusar að halda áfram.

Forysturáðherrarnir tala um traust, við verðum að byggja upp traust. Nú er búið að slá lán, það jafn bráðvantar ekki peninga lengur. Íslenskur almenningur borgar. Nú bráðvantar traust. Við eru beðin um að skaffa það líka með því að sætta okkur við orðinn hlut. Ekki kjósa, hætta sífra um nýtt fólk og nýja stefnu. Nú vantar gamla, góða, spaka, blinda íslenska traustið. Það er til í geymslum ríkisins, segja leiðtogarnir. Það er oní kjörkössunum frá því síðast. G-traust, endist í 4 ár.

Nei, gott fólk. Sjáiði ekki það sem ég sé?

18. nóvember 2008

Máninn líður, dauðinn ríður

Hafi einhver haldið að Geir Haarde hefði tak á taumunum við stjórn landsins sýna atburðir dagsins hið gagnstæða. Davíð Oddsson leikur sér eins og köttur að mús við að mana ríkisstjórnina. Nú þegar stjórnin hefur hrakist sneypulega til baka úr öngstræti sem hernaðaráætlun Davíðs kom henni í. Geir rykkir í taumana, en draugurinn tekur á móti. Góðan ásetning Geirs hefur enginn efað, en hver vill láta draug ráða för? Íslensk þjóð er stjörf af ótta.

Það eru margt líkt með leiðtogunum tveimur, Davíð Oddssyni og Jónasi frá Hrfilu. Því miður átti Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar engan Hermann og engan Eystein. Þeir eiga hins vegar sinn Tryggva Þórhallsson, Stóra-Núllið.

Staka hins einstaka

Ræða á fundi Viðskiptaráðs

Hrópaði, bölvaði, brýndi raust,
benti á hættu sanna!
Ég er bara vita valdalaust
verkfæri heimskingjanna.

14. nóvember 2008

Flokkspólitík

Flokkspólitík eru hin náttúrulegu stjórnmál á Íslandi. Fólk er kallað pólitískt ef það fylgir eindregið ákveðnum stjórnmálaflokki. Umhverfisverndarsinnar, jafnréttissinnar, neytendatalsmenn eða lýðræðisbaráttufólk eru kverúlantar, ekki fólk í pólitík. Nema það fylgi eindregið ákveðnum flokki, en þá þarf það líka um leið að aflsala sér baráttumálið í hendur flokksins.

Flokkshollusta er auðvitað ekki séríslenskt fyrirbæri, en hugsunin um flokkspólitík sem hin náttúrulegu stjórnmál er það. Það er að segja meðal lýðræðisríkja, en hið eðlilega fyrikomulag annars staðar. Ættbálkurinn, klanið, trúarhópurinn eða Flokkurinn eiga það sameiginlegt með íslenskri flokkspólitík að koma fyrst, málefnin á eftir. Og ekki bara málefnin heldur líka leikreglurnar. Flokkurinn er stærri en kerfið sem hann tilheyrir. Íslensk stjórnmál eru gegnsýrð af þessari hugsun að allt sé leyfilegt ef það þjónar markmiðum flokksins og hann komist upp með það. Allt er leyfilegt nema að svindla í kosningum. Spillingin fer fram fyrir opnum tjöldum: Stöðuveitingar, útlutun verðmæta og valds, útbýtingar flokka á milli.

Undirliggjandi er þessi hugsun, sem er ekki lengur hugsun heldur reflex, að flokkur sé grunneining og kjarni stjórnmálanna, ekki fólk, ekki lýðræði sem aðferð til að koma valdi fólksins til skila. Þess vegna hefta íslenskir stjórnmálamenn aldrei hendur sínar til þess að þjóna lýðræðinu. Dettur ekki hug að láta lýðræðið njóta vafans, komi sú staða upp. Og þess vegna lýtur flokkur auðveldlega einum vilja, vilja hins sterkasta. Afleiðingarnar hafa reynst hrikalegar.

Fálki íslenskra stjórnmálaflokka, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur í dag skipað nefnd til að móta stefnu í Evrópumálum sem aðstæðurnar hafa þegar ákveðið. Allir íslenskir stjórnmálaflokkar munu brátt standa í sömu sporum, að móta stefnu í lýðræðismálum sem aðstæðurnar hafa þegar ákveðið.

Litla hryllingsbúðin Ísland

Nú kemur í ljós hvað liggur að baki magnaðri utanríkisdeilu. Íslendingar eru fífl! Við stöndum frammi fyrir þjóðum heims sem aular. Ísland kemst í sögubækurnar fyrir stærstu bóluna og mesta hrunið. Einkavæðing ríkisbankakerfis sem stóð í örfá ár og endaði með fullkomnu grandi. Ísland, litla hryllingsbúðin. Taumlaus eyðsla lánspeninga og bankakerfi sem óx eins og mannætuplantan Auður önnur. Fullkomlega galin hagstjórn. Fullkomlega galin þjóð sem veitir slíkri hagstjórn brautargengi í eyðslugleði sinni. Við hrunið kemur svo heimóttarskapurinn og frekjan átakanlega í ljós. Þjóð sem gerir milliríkjasamninga bara til að hafa af því gagn sjálf, en hleypur frá ábyrgðinni ef eitthvað fer úrskeiðis. Það er grundvallarafstaðan til samskipta við aðrar þjóðir.

Svona sjá aðrir okkur. Þess vegna komast Bretar upp með að beita okkur hernaðaraðgerðum. Þess vegna sjá engir aumir á okkur, jafnvel þótt við séum svona lítil og krúttleg þjóð. Með lýðræði og allt.

Það þarf harða baráttu til að komast út úr svona erfiðri stöðu. Þunglyndi má ekki drepa bjartsýnina, en Íslendingar þurfa að vinna í sjálfum sér, eins og það heitir.

11. nóvember 2008

Don't send to all

Nú ættu bændur á Suðurlandi að efna til hópreiðar til Reykjavíkur og mótmæla tölvupóstinum. Lágmarkskrafa væri að fá "send to all" funksjonina fellda niður.

Vísun: http://eyjan.is/blog/2008/11/11/bjarni-um-trunadarbrefid-sem-hann-sendi-fjolmidlum-i-ogati-allt-i-gamni-gert/

10. nóvember 2008

Stríð og friður

Ísland á í stríði. Ísland er þjófkennt og beitt stríðsaðgerðum að hálfu Breta og Hollendinga. Önnur ríki nálgast okkur með mestu varúð. Hvorki ESB eða BNA virðast hjálpleg. Rússland, Japan , Kína, alls staðar virðist Íslandi mætt með efasemdum. Engir tilbúnir í bandalag með okkur nema Færeyingar. Norðurlöndin standa þétt við bakið á okkur með því að fylgjast grannt með!

Ríkisstjórnin hefur ekki þorað að nefna hlutina réttum nöfnum og það hefur vafist fyrir mönnum að skilja þessa kreppu, sem svo er kölluð. Þetta er stíð. Kreppan er að vísu bara að hluta til afleiðing stíðsins, hún er líka kreppa hrunins bankakerfis og gjaldþrota stórfyrirtækja. Kreppa hefði orðið án IceSave. En IceSave er staðreynd, svo við fengum bæði stríð og kreppu. Aðgerðirnar verða að taka mið af þessu.

Ísland er þjófkennt. Fólk, sýslur og sjóðir misstu peninga, um það er ekki deilt. Mótaðilar í þessu stríði kenna íslensku þjóðinni um, ekki nokkrum einstaklingum. Þeir telja greinilega að íslenska kerfið hafi átt sök á þessari glæfralegu starfsemi, sem hirti fúlgur fjár með gylliboðum, en hrundi til grunna á örskömmum tíma. Óreiðumennirnir í þeirra augum heita Davíð, Geir og Björgvin. Íslenska ríkisstjórnin sem ábyrðaraðili eftirlitstofnana og seðlabanka.

Hvað er til ráða? Árni Þór Sigurðsson upplýsir í Mogga dagins um stemmninguna hjá ESB og dregur ekkert undan, enda Evrópusmbandið lastabæli í hans vinstri grænum augum. Árni vill svelta sig út úr þessu. Taka engin lán, borða fisk og kartöflur og elska landið heitt. Iðrast útrásarinnar.

Þessu hlýtur maður að mótmæla. Fyrr en ákveðið er að gefast upp verður að reyna að fá fram frið á lífvænlegum forsendum. Fá aðrar þjóðir til að snúast á sveif með okkur og fá bæði friðinn og tækifæri til að endurreisa landið. Íslendingar verða að segja umheiminum hvers vegna þetta gerðist. Sýna svo í verki að þetta munum við ekki láta gerast aftur.

Bremsulaus frjálshyggja varð íslendingum að falli. Ól af sér hagstjórn sem trúði markaðsfrelsi og hafði óbeit á eftirliti og aðhaldi. Þessi söngur þótti mörgum í heiminum fagur og íslenskir ráðamenn sungu stoltir um haftafrelsið íslenska. Afleiðingar þessarar hugmyndafræði koma nú harðast niður á þeim sem blindast trúðu. Hafi einhverjir haft rangt við voru það einstaklingar sem fengu olnbogafrelsi í kerfi sem hafði rangt fyrir sér. Íslensk stjórnvöld stóðu ekki að svindli. Því síður að íslenskur almenningur hafi viljað að bankarnir sæktu pening með þessum hætti. Íslenska ríkið stendur við lagalegar skyldur, en meira ekki.

Þetta þurfum við að segja hátt og skýrt. Við vorum kannski aular, en hryðjuverkamenn erum við ekki. Allir sem brennimerktir eru hruninni hugmyndafræði eiga auðvitað að hverfa úr valdastöðum strax. Óþarfi að persónugera neitt í því efni. Allar stofnanir brennimerktar sömu hugmyndum þurfa nýja stefnu. Þar með talið Alþingi.

9. nóvember 2008

Vargöld sem var

Skáldamál og líkingar voru rauður þráður í Silfri Egils í dag. Mörður greip fótboltalíkingu hollenska blaðamannsins á lofti og bætti í. Fjórtán tvö, hvað eftir annað og ennþá sama liðið, sami þjálfari! Vilhjálmur Árnason talaði skýrt sem pólitískur siðfræðingur. Andri Snær sló estetíska strengi, mælskari en ég hef heyrt hann áður og veitti von. Nýrri tegund er nú raðað upp í álitsgjafaliðin, félagsfræðingum og heimspekingum, að skáldum og rithöfunum ógleymdum. Forstöðumenn greiningardeildanna hafa fallið í skuggann, enda jafntraust að leita til seiðkarla um spár, eins og nú háttar. Svo sjá menn að eldveggirnir milli greininga- og gerningadeilda bankanna héldu ekki vindlareyk.

Allir tala um að þögnin sé að brjóta niður þjóðina. Þögnin er auðvitað ráðleysi, en nánar tiltekið er hún ráðleysi siðleysisins. Enginn viðurkennir mistök, svo það er bara að keyra áfram. Sömu menn vilja halda áfram. Hvert? Það má guð vita. Ekki tímabært að ræða stefnuna skilst manni, því það sé svo brýnt að bregðast við áfallinu.

Myndin af þessu birtist í blöðunum á dögunum. Maður hafði ekið á ljósastaur á Álftanesi, rifið hann lausan, en komist samt tveggja kólómetra leið áður en jeppinn stöðvaðist. Þessu fylgdi mynd að nýjum, svörtum Range Rover með heitgalvaniseraðan ljósastaur í öfugu vaffi langsum yfir bílinn. "Ökumaður er grunaður um ölvun" voru lokaorð fréttarinnar.

Allir tala um nýtt Ísland. Menn fyllst skyndilega von um að allt breytist, að það sem áður var svo spillt, rotið og gildislaust hverfi og við fáum eitthvað nýtt og betra. Maður verður að taka þennan vagn, annað er ekki í boði. Það verður að koma eitthvað nýtt og annað. Annað fólk með aðra rödd. Hinn kosturinn er vonleysi, sárauki og niðurlæging.

Það sem virðist enn standa af veröld sem var, er í raun fallið. Það á líka við um ríkisstjórnina. Hverjir hafa mátt til að standa upp úr brakinu, dusta sig og halda til móts við nýja veröld vitum við ekki enn.

6. nóvember 2008

Úr svörtu í rautt

Nei, það var ekki líklegt að frestuð dagsetning Alþjóða gjaldeyrissjóðsins stæði, svo ég svari sjálfum mér frá í gær. Nú er talað um mánudag. Finnst mönnum það sennilegt? Stjórn AGS vill ekki samþykkja fyrirliggjandi beiðni. Jónas Kristjánsson, jonas.is, sem hefur hingað til séð biksvart og haft rétt fyrir sér er nú farinn að sjá rautt. Hann sér blóð. Hann segir að byltingin hafi þegar átt sér stað. Valdhafarnir hafi bylt þjóðinni undir belginn á sér. Nú verður sest oná hana og tekinn tvölfaldur Nelson á hausnum.

Það eina jákvæða við þetta er að nú veit maður hver hefur verið völva Vikunnar öll þessi ár.

5. nóvember 2008

Klárir í bátana

Þögn sem fyrr. Er sennilegt að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn taki umsókn Íslands fyrir á föstudag frekar en í dag? Er sennilegt að skilyrðin verði gerð opinber? Sér nokkuð fyrir endann á biðinni eftir hinu óumflýjanlega? Á meðan getum við virt fyrir okkur nokkur brot af myndinni.

Bankakerfi, 15 falt stærra en þjóðarbúið hrundi. Ekki einn banki, ekki bræðrabylta eins og í BNA, heldur heila sýstemið. Einn sagður felldur af Bretum, en það var vegna þess að annar, sem bauð vexti og vaxtavexti fór á hausinn með gullið í kollinum. Hvort hinn felldi hefði annars staðið orkar reyndar tvímælis að mér skilst. Bretar sögðu viðskipti Landsbankans hryðjuverkastarfsemi. Þeir eru snobbaðar bullur. Kunna að sparka á milli fóta án þess að skvettast uppúr Martini glasinu. (Þess vegna leggjast þeir líka flatir fyrir ennþá sterkari bullum eins og George W. Bush).

Það breytir ekki því að Íslendingar eru fjárglæframenn í augum heimsins. Það mun kosta mikla grænsápu í langan tíma til að þvo þann stimpil af okkur. "Hverju munar vinum að sjá aumur á okkur, bara þrjú hundruð þúsund sálum?" hugsa Íslendingar. Færeyingar einir gefa sig fram. "Hvernig gátu þessir vinir okkar, bara þrjú hundruð þúsund sálir, valdið þessu tjóni?" hugsa útlendingarnir. Þessir fáu sem sýna okkur skilning. Hinir segja: wankers!

Þeir segja sanngjarnt að við borgum. Hverjir bera ábyrgð aðrir en þjóðin, sem valdi stjórnmálamennina, sem völdu bankamennina, sem ollu tjóninu? Þjóðin borgi með ánuð sinni óheft frelsi hinna útvöldu. Summa frelsins sé konstant. Og hér stöndum við og getum ekki annað. Bankakreppa eða þjóðarkreppa? Fjármálaáfall eða siðferðishnekkir? Það er og en ekki eða.

Spilin á borðið. Við róum út á Flóann ef annað bregst. Sjóstakkurinn minn hangir í miðstöðvarkompunni. Það er sama hvað ástandið er svart, framtíðin er björt.....frjálsu fólki.

4. nóvember 2008

Biðin er verri en allt sem bíður okkar

Biðin er verri en banvænn sjúkdómur. Erfiðastu stundirnar í læknastarfinu eru þegar mikilvæg sjúkdómgreining dregst á langinn. Þetta gerist öðru hvoru hvernig sem á er haldið. Grunsamleg breyting finnst við rannsóknir en sýnataka mistekst þrátt fyrir endurteknar tilraunir. Biðin eftir úrskurðinum frestast endurtekið og fólk bókstaflega tætist í sundur af óvissu. Ég hef séð sterkt og vel gert fólk verða fullkomlega örvinglað í máttleysi sínu. Maður farið að óttast að það gripi til skelfilegra örþrifaráða. Svo þegar niðurstaðan kemur, því miður oft slæm, segir fólk iðulega eitthvað á þá leið að vissulega hefði það vonast eftir betri féttum, en mestu skipti að biðin væri á enda. Nú gæti það byrjað að takast á við vandamálið. Tengja sig við tímann, halda áfram. Biðin er verri en banvænn sjúkdómur.

Nú hefur þessi auðnulausa þjóð, Íslendingar, beðið sex vikur eftir að heyra hvað í raun bíður hennar. Hvaða leið henni er ætlað að feta og með hvaða byrðar. Fyrr en hún veit það, veit hún ekki hvað hefur gerst. Biðin tætir fólk sundur. Ákall um samstöðu er marklaust. Samstöðu um hvað? Hama sig eins og hross í hríðarbyl?

Ríkisstjórnin upplýsir ekki þjóðina um það sem hún á rétt á að vita. Alþingi þrumir ráðalaust, valdalaust. Forystumaðurinn víkur sér inn í þögnia með þægindalygum frá degi til dags. Svona á að gera þetta verst og vitlausast.

Læknir sem eitthvað kann segir sjúklingi sínum allt sem hann veit og getur staðfest strax og hann fær það staðfest. Það er vissulega vandmeðfarið hvað maður segir áður en staðfestingin liggur fyrir, en aldrei þegja þunnu hljóði. Aldrei víkjast undan því að upplýsa alla þá sem eiga á því heimtingu. Og aldrei, aldrei skrökva sér til þæginda.

Reiðin blossaði upp í gær vegna frétta um milljarða afskriftir bankanna á skuldum eigin gæðinga. Frétt sem kviknaði eins og gróusaga í tölvupósti en neyddi svo bankana til játninga í dag. Stjórnmálaflokkarnir skilja eflaust ekki að það er ekkert eins og það var. Allt getur gerst. Lengri þögn og fleiri blekkingar og það sýður upp úr.

1. nóvember 2008

Af hverju var Palli ekki vakinn?

Óttinn við takkann sem eyðilegði allt var raunverulegur fyrir mér sem smápjakka. Einhver af stóru strákunum hafði sagt mér að ef maður fiktaði í græjum sem maður kunni ekki á gæti maður óvart ýtt á takkan sem eyðlilegði hlutinn. Þegar ég stalst til að fikta í bíl, þrýsti á alla hnappana og rykkti í öll handföngin eins og það er orðað í Palla einum í heiminum, var gleði mín smituð efablöndnum ótta. Ég gat ekki útilokað að sagan um forboðna takkann væri rétt. Svo lærði ég að hvorki bílar né önnur tæki hinna fullorðnu eru útbúin sjálfseyðingartakka, enda fullkomlega fáránlegt.


Það kemur mér því á óvart að uppgötva að samfélagið sem ég bý í skuli útbúið sjálfseyðingartakka. Örfáir menn, sem fengu leyfi til að þrýsta á alla takkana og rykkja í öll handföngin hittu á slíkan takka. Takka sem opnaði peningasugur í nafni ávötunarreikninga úti í heimi og voru á ábyrgð þeirra auðnulausu eyjaskeggja sem Ísland byggja.


Er þetta trúlegt? Getur það staðist að þetta hafi "bara gerst". Hlýtur ekki ríkisstjórn að vera ljóst hvílíkt glæfaspil var um að ræða? Hvað getur skýrt að Palli fái að ganga í svefni og þrýsta á raunverulega takka meðan þeir sem bera ábyrgðina horfa bara á?