Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra er á móti álveri í Helguvík. Er þetta ekki fáheyrt, sé ég bloggara býsnast. Í þessarri tíð, að blessuð manneskjan hafni þrjú þúsund störfum handa 6000 auðum höndum. En Mörður Árnason, hinn græni varaþingmaður Samfylkingarinnar, er líka á móti Helguvík. Össur er hins vegar með, guði sé lof og ætlar að hafa sitt fram, enda meirihluti á þingi fyrir slíku stórvirki. En verður það ekki hneysa fyrir Kolbrúnu að umhverfisráðherrann láti í minni pokann?
Í Reykjavíkurtjörn stendur ráðhúsið, sem flestum þykir nú dálítið vænt um. Gamlir Reykvíkingar muna æstar umræður þegar Davíð Oddsson óð út í Tjörnina með þetta gælumannvirki sitt. Pólitískir andstæðingar sökuðu hann um bruðl og oflátungshátt, en hann strauk líka gamla reykjavíkuríhaldinu í eigin flokki hastarlega andhæris með þessari byggingu. Það mega sagnfræðingar um dæma, en mér finnst sennilegt að sigur Davíðs í þessu máli hafi orðið honum mikilvægt veganesti. Löngu seinna upplýsti Davíð Oddsson að hann hefði í raun alls ekki viljað þetta hús, heldur annað, en varð undir í atkvæðagreiðslu. Hann fór þá fram á nýja atkvæðagreiðslu og greiddi vinningstillögunni atkvæði sitt. Þetta fór fram á lokuðum fundi og varð ekki opinbert fyrr en hann sjálfur sagði frá.
Davíð var með þessu að lýsa aðferð sem hann lagði mikla áherslu á: Mál skulu útkljáð fyrirfram. Samstaða er nefnilega skynsamleg og hún virkar. Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér. Spyrjið gömlu vinstrimennina hve mörg góð mál hafa verið eyðilögð með innbyrðis deilum um aukaatriði. En þó samstöðupólitík gefi styrk verður hún fjandlýðræðilsleg gerð að reglu. Í höndum machiavelliskra stjórnmálamanna breytist samstaða í sameinuðu furstadæmin. Fyrir luktum dyrum hætta menn að miðla bara málum, en fara að miðla gæðum. Deila með sér völdum og auði. Þetta er hættan sem býr í kerfinu, sama hvaða fólk á í hlut. Á endanum verður pólitík sem metur samstöðu og styrk ofar öllu að mafíustarfsemi. Fasismi í gæru lýðræðis.
Án þess að hafa ástæðu til að væna fólk um sjálfshygli, hvað þá heldur fasisma er pólitíski veggurinn, þessi skilyrðislausa samstaða ljótur hvar sem hann birtist. Fjölbreytileikanum er hafnað, hinu veikburða vikið til hliðar og falið. Falskur samhljómur tekinn fram yfir polyfóníu samfélagsins. Áróðurstækni tekin fram yfir sannleikann. Styrkurinn tekinn fram yfir fegurðina.
En áhrifa árangursríkra aðferða Flokksins sem ráðið hefur lögum og lofum á Íslandi áratugum saman gætir víðar en menn þora að viðurkenna. Þegar Samfylkingin varð til sem breiðfylking jafnaðar- og vinstri manna var Flokkurinn fyrirmyndin, leynt og ljóst. Og keppinautur. Ingjbjörg Sólrún var hið fullkomna mótspil. Andstaða innmúraðs karlaveldis og spillingar Flokksins, en um leið sterkur foringi. En lífið er bæði duttlungafullt og mótsagnarkennt því styrkurinn og viljinn urðu henni að falli. Og veikasta ríkisstjórnin með ólíklegasta forsætisráðherrann reynist nú svo miklu sterkari en sterkasta ríkisstjórnin með óhjákvæmilegasta forsætisráðherrann.
En aftur að niðurlæginu ráðherrans á þingi. Kolbrún og félagar hennar til vinstri og græns hafa margoft sagst mótfallin fleiri álverum. En nú eru aðrir tímar og kannski breyttar forsendur svo þingmenn þurfa að meta afstöðu sína á ný. Það hefur umhverfisráðherrann gert og komist að sömu niðurstöðu og áður: Hún er á móti álveri í Helguvík. Svo er um fleiri á þingi, en þó örugglega minnihluta. Þá eiga þessir þingmenn auðvitað að greiða atkvæði á móti. En skipta atkvæði taparanna máli? Jú, þeir setja með þessu verðmiða á aftöðu sína gegn álversbyggingum. Þrátt fyrir árferðið og allt að þrjúþúsund stöfum á byggingatíma eru þeir samt á móti. Þeir ljá umhverfispólitík sinni skýrari merkingu. En með ákvörðun sinni fæla þeir frá einhverja kjósendur, eða laða til sín. Þá þarf þess að gæta þegar kosið er til þings. Vilji samfylkingarsinni til dæmis launa Merði en refsa Össuri verða að vera tök á því. Krafa um persónukjör til þings eru því eðlileg viðbrögð um leið og almenningur hafnar leiðtogaveldinu. Persónukjör á þing þar sem allur þingflokkurinn er alltaf sammála er óþarft. Þingið sjálft er í raun óþarft.
Til að svara spurningunni í upphafi, nei. Það er ekki alltaf veikleiki að lenda í minnihluta, jafnvel fyrir ráðherra. Það getur þvert á móti verið styrkur, töpuð orrusta í sigurstríði. Á hinn bóginn, sá sem vinnur allar orrustur tapar að lokum fyrir sjálfum sér.
4. mars 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Hans, mér finnst bara í fínu að umhverfisráðherra sé á móti álveri. Það hlutverk ráðuneytisins að vera málsvari náttúrunnar. Ég held að hægt væri að skapa þessi 3.000 fyrir minni tilkostnað með öðrum leiðum. Málið er að hugmyndaflug manna við atvinnuuppbyggingu er svo skert og einhliða.
Skrifa ummæli