31. mars 2009
Ísland: Spillvirkjainni
Fyrri hugmyndin, að á Íslandi hafi orðið siðaskipi, er samferða þeirri hagfræðiskýringu að bóluhagkefið sem spratt upp sé annars konar en það kerfi sem var, eða þeirri læknisfræðilegu skýringu að þjóðin hafi orðið manísk. Margir hafa sem sagt lýst því, hver með sínu orðalagi, að skyndilega hafi samfélagið orðið afbrigðilegt eða sjúkt. Hvað finnst trúmönnum? Hvernig vilja þeir lýsa þessum umskiptum? Ég notaði í fyrri pistli orðið andsetinn, talaði um að andskotinn hefði rænt hjörtum fólks og sagði að guði hefði verið afneitað. Allt saman bara orð amatörs, sem veit ekki hvaða orð guðfræði þjóðkirkjunnar hefur í sínum bókum til að lýsa þessu.
Kannski eru sumir trúmenn ekki sammála. Guðleysið sé það sama hvort sem auðmaðurinn hafi hundraðföld laun verkamansins eða tíföld, hvort sem við látum glepjast af sumarhöll eða uppþvottavél, hvort við förum yfir á visakortinu eða tæmum sjóði Seðlabankans. En slík afstaða er bókstafstrú, sem ég held að þjóðkirkjan okkar sé til allrar guðs mildi laus við. Fúndamentalismi eða bóksafstrú sneiðir hjá því að taka siðferðislega afstöðu til venjulegs lífs með því að halda fram reglu án viðmiðs. Málið hér snýst um það, að traðkað var á öllum venjulegum viðmiðum. Hér má grípa til dæmisögu. Það er bannað að stríða og hrinda eins og kunnugt er. Kennari er látinn fylgjast með skólabörnum að leik í frímínútunum. Hann sér að þau stríða hvert öðru og hrinda, en hann lætur það átölulaust á stað og stund, þrátt fyrir að hafa ótal sinnum kennt að svona eigi ekki að haga sér. Þegar hann verður hins vegar var við einelti, að hann telur, skerst hann strax í leikinn. Börnin skilja kannski ekki mun stríðni og eineltis eða verður a.m.k ekki ætlaður sami siðferðisþroski og kennarinn. Við gerum hins vegar kröfur til þess að kennarinn hafi þroska, þekkingu og frumkvæði til að stöðva einelti.
En hvað getur kirkjan gert? Þessu má líka svara með dæmisögu. Dæmið gefur Kristur sjálfur. "Jesús gekk inn í musterið....borðum þeirra, er reiðupeningum skiptu og stólum þeirra, er dúfur seldu, hratt hann um." Segir Oddur Gottskálksson í sinni þýðingu. "Er það eigi skrifað að mitt hús skuli kallast bænahús öllum þjóðum? En þér hafið gjört það að spillvirkjainni."
30. mars 2009
Kirkjan afneitar guði og öllum er sama
Sjáið hvað græðgi og skefjaleysi náði ótrúlegum hæðum á örfáum árum. Sjáið hvernig valdhafarnir blessuðu græðgina. Sjáið andvaraleysi okkar og fákænsku þegar við héldum að auðæfin væru raunveruleg og siðferðið ásættanlegt. Sjáið hvað trú kirkjunnar var veik. Aldrei reis íslensk þjóðkirkja upp og mótmælti valdhöfunum, auðmönnunum, bönkunum og blekkingunni. Hún sá ekki það sem gerðist. Sá ekki að þjóðin var ekki lengur trúlaus eins og venjulega, heldur andtekin. Þjóðin sá það ekki sjálf, en hún er trúlaus. Úr því að kirkjan sá það ekki heldur, hlýtur hún líka að vera trúlaus. Nema hún sé svona fullkomlega huglaus og það er trúleysi út af fyrir sig.
26. mars 2009
Góðir Íslendingar
En hvað með þjóðina? Hver á að biðja þjóðina afsökunar á þessum afglöpum? Þessu er engan veginn einfalt að svara. Hvor á að afsaka fyrir hvorum og hvor að fyrirgefa hvorum, Flokkurinn eða þjóðin? Mörkin milli þjóðar og Flokks hafa löngum verið óljós. Gamall skólabróðir minn hermdi snilldarvel eftir Geir Hallgrímssyni. Hann fór jafnan með þetta ávarp: "Góðir Íslendingar og aðrir Sjálfstæðismenn!"
22. mars 2009
Á valdi heimskunnar
Gísli... Eiríkur...Helgi
16. mars 2009
Lygi
Lygin hefur legið mér á hjarta, hún tók við af rigningunni eftir að við fluttum heima frá Bergen. Ég hef reynt að blogga um hana, en orðið frá að hverfa vegna leiðinda. Ég var að reyna halda því fram að gamla ríkissjórnin hefði fallið á lyginni. Forsætisráðherra gripinn vegna óvenjulegra mannaferða undir Arnarhóli skrökvar eins og stákur. Ríkisstjórnin sem fetar sama veg áfram þrátt fyrir hrun og viðurkennir ekki að hafa gert neitt rangt en lofar öllu góðu, líka því sem hún ætlar ekki að efna. Ríkisstjórn með Stokkhólmsheilkennið, gísl bankakerfis sem fór landa á milli með boðskap um "traust íslenskt fjármálakerfi og góða stöðu bankanna". Boðaði lygi af ótta við sannleikann. Þannig var það og þetta verður að segjast eins er. Hversu ósanngjarn sem heimurinn annars er verður lygin að njóta sannmælis. Lygi er lygi. En allir eiga leiðréttingu orða sinna nema andskotinn var haft eftir Elíasi Mar. Þegar leiðréttingin lét á sér standa og ljóst að hugarfarsbreyting yrði engin braust búsáhaldabyltingin út.
Lygin er laukur. Ef byrjað er að skralla stendur ekkert eftir. Þægindalygi á sunnudegi spretta úr jarðvegi sem nært hefur lygi. Stjórnmál ímyndar og leikritunar, pí-errs og spuna byggja á lygi. Þeim mun lengra sem þau ganga, þeim mun flinkari sem atvinnumennirnir eru, þeim mun meiri er lygin. Af sjálfu leiðir. Orðið sjálft "almannatengsl", "public relations", segir sína sögu. Það eru notað um áróður, própaganda, sem hefur ekkert með tengsli að gera. Menn kaupa ekki pí-err til að læra sjálfir eða leita sannleikans, heldur til að gera fiksjónina sennilega. Hitt kann svo að gerast að menn gangi sjálfir inn í skáldskapinn og fari að trúa ímyndinni. Halda að þeir hafi orðið Anna Frank með aðferðum Leni Rifensthal. Leiðin að sannleikanum er hins vegar bara ein.
Lygin býr í okkur sjálfum. Ekkert samfélag byggir slíkar hátimbraðar blekkingaborgir eins og nú hrynja víða um lönd, nema að lygin sem þær eru reistar á hafi áður breiðst út meðal einstaklinganna. Og fólk er ginnkeypt. Miklu hryllilegri lygi en okkar hefur heltekið heilu þjóðirnar bæði nýlega og nálægt okkur. Okkar lygi var auðvitað tilbrigði við dansinn kring um Gullkálfinn. Efnahagsleg gæði hafa verið megin stefið í stjórnmálum með kröfunni um meira handa öllum. Deilan hefur snúist um aðferðina, ekki tilganginn. Við völdum líklega versta kostinn, hreina viðskiptatrú. Viðskipti sem sannleikurinn og lífið, markaðurinn guð. Þetta er sá öfugsnúni kristindómur sem segir að til að komast inn í himnaríki þurfi að kasta frá sér öllu öðru en veraldlegum gæðum. Við lugum því að okkur sjálfum að græðgi væri ekki til, réttlætið fælist í góðum bisness og kærleikurinn í hagnaði. Við sögðum að öræfakyrrðina mætti meta til þeirra verðmæta sem fengjust í aðgangseyri. Sögðum að auðsöfnun einstaklinga endurspeglaði velmegun þjóðarinnar. Héldum að kaupgetan væri manngildi.
Nú snýr það að okkur sjálfum að leiðrétta lygina. Vegurinn að sannleikanum er aðeins einn og hann er liggur inn á við. Til að geta krafið aðra um sannleikann verðum við að vera sjálfum okkur samkvæm og heiðarleg. Við sem viljum breytingar, nýtt gildismat, verðum fyrst að svara hver okkar persónulegu lífsgildi eru. Málið snýst ekki um hverjum jakkafötin fari best.
4. mars 2009
Fegurð minni pokans
Í Reykjavíkurtjörn stendur ráðhúsið, sem flestum þykir nú dálítið vænt um. Gamlir Reykvíkingar muna æstar umræður þegar Davíð Oddsson óð út í Tjörnina með þetta gælumannvirki sitt. Pólitískir andstæðingar sökuðu hann um bruðl og oflátungshátt, en hann strauk líka gamla reykjavíkuríhaldinu í eigin flokki hastarlega andhæris með þessari byggingu. Það mega sagnfræðingar um dæma, en mér finnst sennilegt að sigur Davíðs í þessu máli hafi orðið honum mikilvægt veganesti. Löngu seinna upplýsti Davíð Oddsson að hann hefði í raun alls ekki viljað þetta hús, heldur annað, en varð undir í atkvæðagreiðslu. Hann fór þá fram á nýja atkvæðagreiðslu og greiddi vinningstillögunni atkvæði sitt. Þetta fór fram á lokuðum fundi og varð ekki opinbert fyrr en hann sjálfur sagði frá.
Davíð var með þessu að lýsa aðferð sem hann lagði mikla áherslu á: Mál skulu útkljáð fyrirfram. Samstaða er nefnilega skynsamleg og hún virkar. Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér. Spyrjið gömlu vinstrimennina hve mörg góð mál hafa verið eyðilögð með innbyrðis deilum um aukaatriði. En þó samstöðupólitík gefi styrk verður hún fjandlýðræðilsleg gerð að reglu. Í höndum machiavelliskra stjórnmálamanna breytist samstaða í sameinuðu furstadæmin. Fyrir luktum dyrum hætta menn að miðla bara málum, en fara að miðla gæðum. Deila með sér völdum og auði. Þetta er hættan sem býr í kerfinu, sama hvaða fólk á í hlut. Á endanum verður pólitík sem metur samstöðu og styrk ofar öllu að mafíustarfsemi. Fasismi í gæru lýðræðis.
Án þess að hafa ástæðu til að væna fólk um sjálfshygli, hvað þá heldur fasisma er pólitíski veggurinn, þessi skilyrðislausa samstaða ljótur hvar sem hann birtist. Fjölbreytileikanum er hafnað, hinu veikburða vikið til hliðar og falið. Falskur samhljómur tekinn fram yfir polyfóníu samfélagsins. Áróðurstækni tekin fram yfir sannleikann. Styrkurinn tekinn fram yfir fegurðina.
En áhrifa árangursríkra aðferða Flokksins sem ráðið hefur lögum og lofum á Íslandi áratugum saman gætir víðar en menn þora að viðurkenna. Þegar Samfylkingin varð til sem breiðfylking jafnaðar- og vinstri manna var Flokkurinn fyrirmyndin, leynt og ljóst. Og keppinautur. Ingjbjörg Sólrún var hið fullkomna mótspil. Andstaða innmúraðs karlaveldis og spillingar Flokksins, en um leið sterkur foringi. En lífið er bæði duttlungafullt og mótsagnarkennt því styrkurinn og viljinn urðu henni að falli. Og veikasta ríkisstjórnin með ólíklegasta forsætisráðherrann reynist nú svo miklu sterkari en sterkasta ríkisstjórnin með óhjákvæmilegasta forsætisráðherrann.
En aftur að niðurlæginu ráðherrans á þingi. Kolbrún og félagar hennar til vinstri og græns hafa margoft sagst mótfallin fleiri álverum. En nú eru aðrir tímar og kannski breyttar forsendur svo þingmenn þurfa að meta afstöðu sína á ný. Það hefur umhverfisráðherrann gert og komist að sömu niðurstöðu og áður: Hún er á móti álveri í Helguvík. Svo er um fleiri á þingi, en þó örugglega minnihluta. Þá eiga þessir þingmenn auðvitað að greiða atkvæði á móti. En skipta atkvæði taparanna máli? Jú, þeir setja með þessu verðmiða á aftöðu sína gegn álversbyggingum. Þrátt fyrir árferðið og allt að þrjúþúsund stöfum á byggingatíma eru þeir samt á móti. Þeir ljá umhverfispólitík sinni skýrari merkingu. En með ákvörðun sinni fæla þeir frá einhverja kjósendur, eða laða til sín. Þá þarf þess að gæta þegar kosið er til þings. Vilji samfylkingarsinni til dæmis launa Merði en refsa Össuri verða að vera tök á því. Krafa um persónukjör til þings eru því eðlileg viðbrögð um leið og almenningur hafnar leiðtogaveldinu. Persónukjör á þing þar sem allur þingflokkurinn er alltaf sammála er óþarft. Þingið sjálft er í raun óþarft.
Til að svara spurningunni í upphafi, nei. Það er ekki alltaf veikleiki að lenda í minnihluta, jafnvel fyrir ráðherra. Það getur þvert á móti verið styrkur, töpuð orrusta í sigurstríði. Á hinn bóginn, sá sem vinnur allar orrustur tapar að lokum fyrir sjálfum sér.