11. febrúar 2009

Sögulok

Hvernig verður sagan sem lifir af þessum örlagadögum okkar? Sú saga verður sögð öldum saman, spái ég. Þetta er svo stórt dæmi. Ég er þá ekki að tala milljarðana heldur dæmi fyri sögu, dæmisögu. Saga um mannlega smæð á risaskala. En það er ekki bara ófæddar kynslóðir sem þurfa að reiða sig á sögur þegar talið berst að atburðum okkar tíma. Við sjálf þurfum sögu, eins og alltaf. Þegar þú komst heim með klesstan bíl þurfti sögu. Og alltaf þegar saga fer af stað brunar hún rakleiðis að landamærum raunveruleika og skáldskapar og hlykkjast þar eftir óljósum slóða, sem jafnvel sá sem segir, veit ekki alveg hvar liggur. Við lifum alla ævi í einhverri sögu hverjir sem tímarnir eru, sögu sem við hversdagslega megum eða þorum ekki að rjúfa.

Hrunið hefur nú rifið okkur út úr lygasögu sem sögð var allt of lengi og gekk allt of langt. Mörgum leið illa í þessari sögu, hún var fyrir löngu orðin ótrúverðug. Leið fólki til dæmis vel að sjá ríkisbankanna svo augljóslega afhenta völdum bokkum? Óraði þó engan fyrir stórfengleik glæpsins. Nýleg skýrsla hagfræðinganna Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega dregur upp ágæta mynd af nokkrum sterkum þáttum gömlu sögunnar. Blekkingarvefur, lygafjötur!

Nú erum við stödd á einskissagnalandi. Við erum persónur sem stigið hafa út úr sögu sinni á leið inn í nýja og vonandi betri sögu. Og þegar gamall raunveruleiki verður saga, eins og nú gerist, skiptir máli að skilja þá sögu, vegna þess að ný saga ræðst af því hvernig sú gamla er sögð. Í nýrri sögu erum við aftur persónur, ekki áheyrendur, og hún verður raunveruleiki okkar.

En það hlýtur að vera ógnvekjandi tilfinning að missa jörðina undan fótum sér, eins og hendir stóru persónurnar í gömlu sögunni. Vera raunverulegur maður, sem er skrifaður út úr lífi sínu eins og persóna í leikriti. Er nema von að einhverjir þráist við á sviðinu? En persónurnar skrifa ekki söguna, ekki einu sinni kóngar og drottningar hennar. Brotthvarf úr sögunni snýst ekki um sök. Ekki rugla saman refsingu og úreltu hlutverki. Persónurnar sem þóttust harðast ganga fram í glímu við sökudólgana eru jafn afskrifaðar í sínum hlutverkum. Sögunni er lokið, nýr raunveruleiki er önnur saga.

1 ummæli:

Stefán sagði...

Vel skrifað samkvæmt venju, ég ætla þó að vona að tjaldið sé ekki alveg fallið á sögu Íslands :)
En gaman væri ef skipt væri um aðalleikara og hresst aðeins upp á handritið. Mér líst heldur ekki meira en mátulega á að Jón Baldvin eigi einhverja Bobby Ewing endurkomu.