Sigrún Davíðsdóttir flytur oft frábæra pistla í Glugganum á Gufunni eftir kvöldfréttirnar. Nýlega bar hún saman Ísland og Ítalíu, íslenska og ítalska pólitík.
Clientelismo eða skjólstæðingaveldi einkennir bæði löndin. (http://es.wikipedia.org/wiki/Clientelismo_pol%C3%ADtico). Þetta mun vera kallað pólitísk vél, political machine, í anglósaxneska heiminum. Hagsmuna og hyglunartengsl er límið í svona stjórnmálum. Völdin eru pýramídaformuð og efst situr patróninn, faðirinn eða guðfaðirinn. Skjólstæðingarnir, cliento, eiga líf sitt undir að standa í skjóli enhvers sem tilheyrir valdastéttinni eins og barbarar á dögum Rómaveldis. Þeim sem tilheyra pýramídanum er hyglað með aðgangi að gögnum og gæðum gegn hlýðni og stuðningi við kerfið. Óinnvígðum er meinaður aðgangur og bolað burt. Þeim er refsað gerist þeir of ásælnir. Þar sem pólitískir fulltrúar þurfa atkvæði kjósenda til að komast til valda höfðar kerfið gjarnan til hagsmuna tiltekins hóps sem myndar hryggjaststykkið í kjósendahópnum. Hagsmunir og samsömun með Flokknum ráða, ekki málefni. Áhrif í fjölmiðlum og öflugur spuni er líka nauðsynlegur, enda þolir vélin sjálf ekki dagsljósið.
Svona kerfi hrekur burtu heiðarlegt fólk. Þeir sem ekki eru í Flokknum eru annars flokks, í tvölfaldri merkinu. Svona kerfi er lífseigt, Berlusconi kom til baka þrátt fyrir allt. Og jafnvel þó einhverjar persónur verði hraktar út sætum sínum lifir kerfið. Það er nóg um arftaka og vélin gegur smurt.
Ísland hefur búið við slíkt vélræði sem hér er lýst, bæði á svið stjórnmála og viðskipta. Leikurinn gekk reyndar of langt og grundvöllurinn brast. Bankarnir hrundu. Pólitíski pýramídinn berst líka fyrir lífi sínu, en enginn skyldi vanmeta lífseiglu vélræðisins. Samdauna þjóð þolir mikil vélráð áður en hún brýst út úr gíslingunni.
Við hrópum á kosningar. Umræðan hitnar um gjaldmiðil, Evrópusambandið og mann sem heitir Davíð Oddsson og er alls staðar og alltaf. Þetta er allt skiljanlegt og rétt, en það er samt mikilvægast að fjalla um vélina sjálfa. Vélina sem fengið hefur að níðast á landi og þjóð með pólitískum og peningavöldum.
Hver sem afstaða fólks er til Evrópusambands, einstaklingsfrelsis, velferðarkerfis eða annarra pólitískra mála þá ætti krafa alls heiðarlegs fólks að vera þessi: stoppum vélræðið! Þetta er gert með því að opna fyrir dagsljósið og styrkja lýðræðið. Þessu má byrja að breyta strax. Afnemum skaðlega bankaleynd. Uppboð á eignum banka, ekki pukurdílar. Upplýsum skúmaskotin. Tölum svo um stóru málin eins og stjórnskipun og lýðræði. Lýðræði þarf ljós. Við viljum blóm, ekki meiri sveppi.
Hver getur gripið þennan fána og gert baráttuna gegn skjólstæðingaveldinu, vélræðinu að þeirri hreyfingu sem við þörfumst?
8. desember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
þetta lætur óhuggulega nærri..
gott annars að sjá þig þeysa fram á rafvöllinn! (setti tengil á þig frá blogginu mínu, vona að það sé í lagi)
Skrifa ummæli