Allir eru á móti ríkisstjórninni. Þjóðin treystir Mjólkursamsölunni margfalt betur segir ný könnun. Bráðum kemur einhver fram og segir að ríkisstjórnin sé lögð í einelti. Davíð er lagður í einelti sagði Styrmir. Þetta er alltaf sagt þegar óvinsældir stjórnmálamanna stíga til himins. Sagðist ekki Finnur Ingólfsson hafa hætt í pólitík þegar hann sá hversu illa var komið fram við Halldór Ásgrímsson.
Auðvitað er svona eindregið vantraust sjaldnast fyllilega réttlátt út frá hlutlægu mati á orðum og gerðum, það er litað af stemmningunni. En stemmningin verkar í báðar áttir. Eins og allt er merkilegt sem viðurkenndur spekingur segir, er allt vitlaust sem viðurkenndur auli segir. Sagt með öðrum orðum, skiptir ekki máli hvað þú leggur þig fram njótir þú ekki trausts. Í pólitík er fáránlegt að kenna öðrum um að traustið vanti. Það er eins og bakarinn brigsli kúnnunum um einelti, kvarti þeir yfir kökunum.
Halldór, bakarasveinn Sjálfstæðisflokksins, bætti ekki baksturinn þrátt fyrir oj, uss og fuss. Kjósendur Framsóknar reyndust hins vegar ekki hafa bragðlauka Sjálfstæðismanna. Að lokum lognaðist stjórnmálamaðurinn Halldór út af og flokkurinn heldur varla höfði. Samfylking Ingibjargar Sólrúnar bakar nú eftir sömu uppskrift. Bakar og bakar þrátt fyrir oj, uss og fuss. Fyrr verður kvartað yfir einelti en baksturinn batni.
10. desember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli