11. desember 2008

Ný tækni við meðferð lungaþembu


Loftventlar í lungum geta samkvæmt nýjum tilraunum bætt líf fólks með lungaþembu. Þetta eru einstefnuventlar, sem komið er fyrir í berkjum efstu lungnablaðanna of valda því að loft berst auðveldar til annarra og yfirleitt minna skemmdra hluta lungnanna. Áhrifunum svipar til lungnasmækkunaraðgerða, sem vitað er að gera gagn í völdum hópi sjúklinga. Gallinn er að lungnasmækkunaraðgerðir eru mjög erfiðar, kosta 20-30% sjúklinganna talsverð vandamál og dánartíðni er um 8% innan þriggja mánaða. Ísetning ventlanna er hins vegar einföld og án mikilla aukaverkana. Þá má líka fjarlægja aftur. Nýlegar rannsóknir (1,2), sýna mikinn árangur ventlameðferðarinnar á heilsutengd lífsgæði, þ.e. það dró úr óæskilegum áhrifum sjúkdómsins. Einkenni sjúkdómsins, s.s. mæði, urðu vægari og færni batnaði. Öndunarmæling var hins vegar óbreytt og ekki marktækur bati á gönguprófum. Meðferðin stóð aðeins völdum hópi lungaþembusjúklinga til boða, þeim sem höfðu yfirgnæfandi þan á efri lungnablöðum, en sömu skilmerki voru notuð og áður þegar áhrif lungasmækkunaraðgerða voru rannsökuð.
Ný tækni, einstefnuventlar, er því lofandi meðferðarmöguleiki hjá völdum hópi sjúklinga með lungaþembu. Áhrif á einkenni og færni eru mikil og aðgerðin er áhættulítil og einföld.

Engin ummæli: