31. október 2008

Grár og gugginn Davíð saknar andskotanna

Davíð Oddson, sjálfum sér líkur, hendir gaman að fámenni á mótmælafundi tileinkuðum honum. Hann væri þá orðinn svona grár og gugginn hefur DV eftir honum 29/10. Þetta passar vel við kenningu sem ég viðraði á þriðja kaffibolla á dögunum. Óvinsældir Davíðs, kannski fremur en vinsældir hafa lagt grunninn að völdum hans.

Davíð var frá fyrstu tíð í pólitík efstur í báðum deildum. Í byrjun var hann persónugervingur hinnar umdeildu frjálshyggju, en varð síðar sjálfur stærri en nokkur stjórnmálakenning í kvosinni íslensku. Frjálshyggja Davíðs tók jafnframt á sig ýmsar einkennilegar myndir heimasmíði og eignin uppfinninga. Þeir sem andmæltu þessari pólitík voru einfaldlega að andmæla Davíð. Þeir voru settir í fríðan flokk andstæðinga hans. Hóp sem ekki þurfti að svara. Skörulegir stjórnmálamenn eiga sér vitaskuld marga andstæðinga. Andstæðingar eru hlutdrægir. Maður rökræðir ekki við fólk sem er persónulega í nöp við mann. Slíka afgreiðir maður best með því að skjóta á þá, vera fyndinn á þeirra kostnað, koma með neyðarlegar athugasemdir og setja þá "paa plats". Ögrun kallar á viðbrögð og það styrkir enn trúna á að málið snúist um Davíð Oddson, ekki um pólitík. Og styrkir um leið enn trúna á að andmæli eigin liðsmenn formanninum afneiti þeir málstaðnum.

Nú varar forsætisráðherra við því að persónugera vandamál þjóðarinnar í Davíð Oddssyni.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Já, Davíð skaut fyrst upp á stjörnuhimin í íslenskri pólitík þegar Þjóðviljinn sálugi byrjaði að djöflast í honum fyrir áratugum síðan. Það hlýtur að vera púður í manni sem óvinirnir hamast svona á - hugsuðu Sjálfstæðismenn þá. Og Davíð fann sína töfraformúlu sem hann notfærði sér lengi.
En allir leikir geta gengið of langt eins og sannast núna.
kv. Bjöggi