30. október 2008

Nykrað ryk

Geir Haarde átti myndlíkingu sem margir tóku eftir honum. Hann vildi fyrst skoða orsakir bankakreppunar eftir að rykið hefði sest. Þetta tóku ýmsir upp og fóru að tala um að bíða með hitt og þetta þar til rykið hefði sest. Efnislega var forsætisráðherranum mótmælt kröftuglega, en látum það liggja milli hluta hér.

Myndlíking Geirs er meira en nykruð, hún snýr rosanum út. Hún er á röngunni. Í hruninu mikla þyrlaðist ryk ekki upp. Það settist, hvarf. Skyndilega sáum við skýrt. Við sáum hvað duldist bak við framhlið bankanna; fyrirtæki í blygðunarlausri þénustu við eigendur sína á kostnað almennra viðskiptavina. Við sáum hvernig stjórnlaus mylla fjárglæframanna hafði tekið völdin undir sýndaryfirborði velferðarsamfélagsins. Við sáum hvernig gamall pólitískur spuni féll marflatur. Og loks sáum við spillinguna sem farið hefur fram fyrir opnum tjöldum.

Séu atburðir þessara örlagaríku og viðburðaríku daga ruglingslegir er það ekki vegna ryks í loftinu heldur þvert á móti vegna þess að við sjáum svo mikið af því sem við megum ekki sjá. Rykinu var stráð í augu okkar meðan allt virtist leika í lyndi.

En þetta stendur ekki lengi. Mýsnar hverfa fljótt eftir að ljósin eru tendruð. Rykinu verður aftur sáldrað í augu okkar, það er eðlilegt ástand.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Hér er vísar Geir í gamalt Bedúínaminni.
Ef menn hafa séð fyrir sér miklar og vænar hyllingar óhóflega lengi sest svo kallað hyllinga-ryk í augun á eftir. Ég hef heyrt að langan tíma taki að skola það burt.
Kær kveðja og takk fyrir góða pistla,
Bjöggi