29. október 2008

Reykingar

  • Reykingar drepa. Venjulegur reykingamaður lifir 13 árum skemur en reykleysinginn. Styttir líf sitt um korter með hverri rettu. Og áður en venjulegur reykingamaðurinn deyr hefur hann liðið af langvinnum sjúkdómi einhver ár nema dánarorsökin hafi verið hraðvaxta krabbamein. Langvinn lungateppa, kransæðasjúkdómur og annars konar æðakölkun, í útlimum og heila t.d., eru alþekktir fylgifiskar reykinga. Hvers kyns krabbamein, ekki síst lungakrabbamein fylgja reykingum framar nokkru öðru. Reykurinn sem brennur í sígarettunni inniheldur þúsundir efnasambanda, þar af fjöldi krabbameinsvalda. Stöðug erting við innöndun þessa heita eiturlofts veldur viðvarandi bólgu í lungum og líkamanum öllum. Efnin í reyknum berast með blóðrásinni um allt og valda alls staðar skemmdum. Skemmdum sem geta orðið að margvíslegustu sjúkdómum. Eina efnið í sígarettureyknum sem reykingamaðurinn kærir sig um er níkótín. Níkótín er fíkniefni, veldur fíkn vegna áhrifa þess á viðtæki í heilanum og gerir reykingarmanninn ánauðugan og breytir sjálfsmynd hans. Tæknilega stendur bara sprautan reykingum á sporði hvað varðar skammt og hraða efnis beint til viðtækja heilans . Þess vegna reykir fólk níkótínið og þess vegna er þetta óhreina fíkniefni, sígarettan, svona vinsæl. En reykingar eru félagslegt athæfi eins og annað mannlegt atferli og nýtur nú lítillar hylli á vesturlöndum. Þeim sem vilja losna undan ánauðinni má hjálpa með ýmsum ráðum.

Engin ummæli: