10. apríl 2011

Endurtekið efni

Sagan um Æseif heldur áfram. Ég leyfi mér að birta endurtekið efni, pistil eða sögu, sem var skrifuð hér á bloggið 11.október 2009, en ekki birt fyrr en í janúar 2010. Hef stytt þetta hér.


Dag nokkurn í fyrra haust lá Range Rover á hvolfi á miðri götunni okkar. Út úr flakinu dró löggan strákinn í næsta húsi, ósáran en alveg útúrspíttaðan. Bíllinn karlsins á horninu hafði sýnilega orðið á vegi hans og karlfautinn lét dæluna ganga með svívirðingum yfir skelkaða nágranna mína, foreldra ökumannsins, sem komnir voru á vettvang. Eftir þetta er lífið í götunni ekki eins og áður.......

Því er ég að rifja þetta upp nú að ég heyrði fyrir skemmstu frá frænda mínum, sem þekkir náið til fjölskyldunnar, að þaðan sé fátt góðra frétta. Útistöður við karlinn á horninu vegna bílviðgerðarinnar hafa heltekið fólkið, og það virðist hafa fengið verkstæðisreikninginn á heilann. Stórfjölskyldan er komin í hár saman og hver höndin upp á móti annarri.... Allir keppast um að segjast vilja borga minna en hinir. Svo rífst þetta fólk og þráttar innbyrðis fram og til baka án niðurstöðu. Samt er þessi krossbölvaði viðgerðarreikningur ekki nema lítill hluti af öllu peningatapi þessa fólks. Það segist vilja standa í lappirnar með því að standa upp í hárinu á karlinum, en hugsar ekkert um að standa í lappirnar gagnvart sjálfu sér. Sonurinn hefur enn ekki verið látinn svara fyrir eitt eða neitt neitt. ........

Þau barma sér endalaust yfir örlögum sínum og fjölskyldunnar, en minnast ekki einu orði á neinn hinna sem tapað hefur fé og æru fyrir tilstilli sonarins.

Hér er um tvennt að ræða segir frændi. Annað hvort er þetta séræktað fjölskyldulægt siðleysi eða það er skömmin og sektarkenndin sem fær fólkið til að líta undan og loka augunum svo þau sjái ekki í eigin barm. Það forðast allir aðalatriðið. Allir hafa tapað fjársjóðum sínum, líka þeir sem allan tímann voru á móti þessum umsvifum. Þeir töpuðu sakleysi sínu þegar hinir töpuðu peningunum sínum.

Saman segist þetta fólk vera að verja efnahaglegt sjálfstæði fjölskyldunnar og stolt sitt, en sér ekki að með hegðun sinni fyrirgerir það sjálfstæði sínu og svívirðir heiðurinn. Það rís ekki undir verkefninu og ferst í storminum. Enginn vill láta neitt af hendi og því missa allir allt.

8. apríl 2011

Náttgagnabyltingin

Iscesavemálið er gagnbyltingin, gagnbylting þeirra sem urðu undir í búsáhaldabyltingunni. Með þessu málið hefur tekist að tvístra þjóðinni og egna henni saman í hatramman slag þar sem tilefnið er löngu orðið aukatriði, eins og venjulega.

Hrunið var stórviðburður, en hversu stórt er Icesave í því samhengi? Auðvitað ekki nema lítið brot, en heltekur okkur og ætlar að taka sér bólfestu meðal okkar. Icesave er sturlun þjóðarinnar, mál sem ekki er hægt að leysa, kosningar sem ekki er hægt að sigra.

Þetta eru ömurlegir dagar reiði og örvinglunar og það er eins og þræðirnir sem eiga að halda okkur saman séu að rakna, því þetta bölvaða mál hefur att okkur saman, spillt huga okkar og dregið úr okkur máttinn. Í þessu máli er innbyggður ómöguleiki, það er þraut sem hefur enga lausn. Við höfum verið blekkt. Við báðum um meiri völd og vildum fá að kjósa, en því var svarað með því að henda í okkur skítverki sem við aldrei gætum unnið. Og þetta er ekki þeim einum að kenna sem nú fitna eins og púkinn á ástandinu, heldur ekki síður þeim sem áttu að halda upp reglu. Það stendur enginn á prinsippum, menn óttast óreiðufólkið og brennuvörgunum er boðinn góður dagur.

Icesave er Náttgagnabyltingin. Þjóðinni er att saman, ekki með silfri sem kastað er yfir þingheim, heldur með því sem svett úr koppnum af efstu svölum yfir lýðinn. Menn líta hlandblautir hver á annan í fyrirlitningu og ásökun. Slagsmálin brjótast út. Það er sýning sem er meira að skapi fína fólksins á svölunum en hrun þeirra sjálfra, sem sýnt er á fjölunum.

Svo bætist við í hóp þeirra sem espa til slagsmálanna þegar hinir og þessir vilja eigna sér baráttuna. Þeir slást út af mér, segir hver skvísan af annarri. Ein útgáfan er að Íslendingar fórni sér til að mótmæla auðhyggju heimsins. Ekkert er eins fjarri lagi, Íslendingar fórna sér ekki, þó þeim finnist kannski allt í lagi að farast.

Hvernig kýs sá sem fyrirlítur Icesave og gengur hryggur til kosninga? Hann hugsar til þeirra sem skvetta úr koppunum sínum yfir þjóðina og ala á stríðinu. Á hverju byggir lýðhylli þeirra þessa stundina? Hún byggir á slagsmálunum sjálfum og þeir munu halda áfram að ausa úr koppum sínum yfir okkur svo lengi sem þeir geta, því annars missa þeir máttinn, þeir virðingarlausu menn.

X-já. Það bíða okkar mikilvægari verkefni.

26. mars 2011

Kosningar á Kleppi

Sumarið 2008 kom ég heim frá Noregi þar sem fjölskyldan bjó um hríð meðan mesta góðærið geysaði á Íslandi. Það var einkennileg heimkoma. Á leiðinni hitti ég norskan kunningja sem kvaddi mig innilega. Hann greip hönd mína báðum lófum og þakkaði mér fyrir. Þakkaði mér kærlega fyrir að hafa keypt Illum, Magasin du Nord og Hotel D'Anglaterre. Hann var fráskilinn danskri konu, sagði hann og hefði aldrei þolað Kaupmannahafnarsnobb hennar. "Og nú eru þið Íslendingar búnir að kaupa allt sem hún snobbaði mest fyrir. Gott á hana!" Ég stóð eftir ringlaður. Var það nú orðinn minn brandari að einhverjir grínistar á Íslandi keyptu fyrirtæki
hist og her.


Á Íslandi ríkti þetta einkennilega ástand sem við munum vel. Bankakerfi gott fyrir 10 þúsund milljón milljónir hafði veitt peningum eins og stórfljóti yfir landið. Flottasti bílafloti heims hringsólaði um götur og jökla, gulur kranaskógur gnæfði yfir rísandi höllum og gapandi grunnum ennþá stærri drauma. Þeir alstærstu, eins og Kópavogsmanhattan enn á teikniborðinu, því veislunni átti aldrei að ljúka. Hver maður sinn skammt af góðæri. Sendibílstjórinn sem sótti dótið okkar var líka nýfluttur heim frá Noregi og við töluðum um ástandið eins og gamlir vinir. Blessaður vertu, sagði hann, þetta er miklu betra en áður. Ég kom heim árið 2006 og þá var ruglið svo yfirgengilegt að ég flutti bara til baka aftur, en núna hefur sem betur fer hægt á öllu bullinu.


Ísland var í maníu, það var geðveikt. Ranghugmyndakerfið snérist um sérstöðu Íslendinga, víkingaeðlið og dugnaðinn annars vegar en hins vegar um mátt fjármagnsins, frelsi og haftaleysi. Þjóð sem þekkti ekkert nema höft, fyrirgreiðlsupólitík og nebútisma hafði lagt viðskiptaheiminn að fótum sér með nokkurra ára reynslu af frjálsri utanríkisverslun og nokkurra mánaða reynslu af einkabönkum í farteskinu. Þannig eru Íslendingar! Og þetta er bara blábyrjunin, kvað rödd geðveikinnar. Innsæið var ekkert, það er hluti veikinnar. Enginn sá neitt athugavert. Geðveiki Íslands varð þannig mín geðveiki.


Maníukastið endaði, eins og mörg maníuköst, á Kleppi. Kleppur var hrunið, AGS og endalok frelsisins. Við vorum öll send á spítalann og fengum meðöl, hver maður sinn skammt. Við erum svift, beitt þvingunum og fáum beysk meðöl. Hver tekur ánægður meðal við of góðum fíling? Það er vandi allrar maníumeðferðar. Svo orkar allt líka tvímælis, ekki síst þegar valmöguleikarnir eru fáir. Var þvingunin réttlætanleg og ekki þyngri en nausyn krafði? Gerir meðferðin gagn eða kannski skaða? Hver er reynslan af AGS, hver er reynslan af Kleppi? Innlögnin ein læknar engan, og meðölin, þau lækna heldur engan. Þau stöðva kastið og færa okkur nætursvefn, en lækningin kemur að innan. Eins og sá sem situr inni á geðspítala þurfum við Íslendingar að ákveða hvort við viljum verða normal. Vera eins og hinir, og eins og hinir vilja að við séum. Leiðin getur verið löng og yfir margar hindranir. Ein sú erfiðasta eru fordómarnir, fordómar annarra og eigin fordómar gagnvart sjálfum okkur. Sjálfsvirðingin er lykillinn að bata, þar sem við nú sitjum saman á Kleppi að jafna okkur eftir maníukastið. Við getum kennt hinum og þessum um ófarirnar og stikkfríað okkur sjálf af ábyrgð, en hrunið er eftir sem áður staðreynd og þar með okkar vandamál. Íslandsmanían var okkar geðveiki og við þurfum að sigrast bæði á sjálfsásökunum og vænisýki. Meðferðin var komin á skrið og gekk að vonum þegar raddirnar náðu aftur yfirhöndinni. Kjósum á Kleppi sögðu þær. Kjósum um aukaverkanirnar meðalanna. Kjósum aftur um Icesave. Við ættum að muna að á þessum tíma var loks komin samstaða á Alþingi um málið og sú samstaða endurspeglaðist í samfélaginu, sýndi skoðanakönnun. En um leið og röddin yfirgnæfði rökhugsunina riðlasðist allt og geðveikin tók völdin. Og hvernig er ástand okkar nú nokkrum dögum fyrir kosningar? Við erum ráðvillt, reið og hrædd. Allar vondu tilfinningarnar frá dögum hrunsins rifjast upp og er veifað sem gunnfánum þessarar skelfilegu kosningabaráttu. Formælingar, hatur og morðhótanir. Áróður sem maður veit ekki frá hvorri hliðinni kemur, því sömu hörmungar eiga dynja yfir, hvort sem sagt er já og nei.


Geðveikin ræður aftur för og innsæið er ekkert. Allt tal um rökræður og upplýsingar eru innantómt hjóm. Sér enginn í hverju vandamálið liggur? Það eru kosningarnar sjálfar. Lýðræðislegar kosningar verða að fjalla um vitræna spurningu og val milli ólíkra kosta. Venjulega kjósum við okkur fulltrúa sem við veitum umboð til ákvarðana. Er það kerfi kannski ónýtt? Hvað á að koma í staðinn? Auðvitað má líka kjósa um einstök mál, en þá verða kostirnir að vera skýrir og niðurstaðan að hafa ljósar afleiðingar. Kosningarnar á laugardaginn fela ekki í sér spurningu um tilteknar leiðir og niðurstaðan gefur ekkert svar um hvert skuli haldið. Það er bara spurt um samþykki eða synjun þessa tiltekna milliríkjasamnings. Það er svo annað mál að kosningarnar hafa auðvitað afleiðingar, að mestu ófyrirsegjanlegar afleiðingar. Um þetta á að kjósa og það er ekki nema vona að mörgum líði illa og viti ekki sitt rjúkandi ráð.


Rökin í málinu eru rökin að baki samningnum. Þau eru byggð á efnahagslegu, lögfræðilegu, pólitísku og siðferðislegu mati sérfæðinga, sem hins vegar taka ekki sjálfir ábyrgð á undirskriftinni. Þann kaleik ætluðu stjórnmálamennirnir að bergja, því til þess eru þeir kosnir, þegar forsetinn sagði nei. Þetta væri kaleikur þjóðarinnar allrar, hver maður sinn skammt! Við göngum sem sagt að kjörborði nú, ekki til að segja hvað við viljum, heldur til að taka ábyrgð eða hafna ábyrgð á samingi sem enginn hefur lesið og breytir engu þótt að læsi. Við greiðum hvort sem er atkvæði eftir því hverjum við treystum best, hvaða lögfræðingi, álitsgjafa, fjölskyldumeðlimi, spekingi eða angurgapa við treystum best. Af því að röddin sagði að við treystum ekki þeim sem við höfðum valið til að fara með mál eins og þessi.



Og menn láta eins og allt sé í himna lagi, eins og þetta séu ósköp venjulegar kosningar. Þær fari sí o só, því svona sé lífið. Ríkisstjórnin ætlar að sitja áfram hvernig sem fer og forsetinn auðvitað líka. Samt sýnir þetta mál augljóslega, að stöðvi forseti gildistöku laga og vísi í þjóðaratkvæði, þá verður kosningin að snúast um embættislíf þeirra sem samþykktu lögin eða neitaði staðfestingar. Annars er ekki heil brú í kerfinu. Það er nefnilega undir hælinn lagt hvort kosning um lögin sjálf feli í sér nothæfa spurningu, en kjósendur geta þá stöðvað landsstjórnina fari hún villur vegar, en forsetinn verður um leið að leggja sitt embætti undir, því einum manni má ekki líðast að lama stjórn landsins í óþökk kjósenda.

Kosningarnar eru staðreynd, rétt eins og manían og hrunið, sem ekki tjóir að æðrast yfir. Við verðum að kjósa. En við getum gengið að kjörborðinu með því hugarfari sem við sjálf viljum. Okkur býðst að segja eða Nei. er að þiggja meðalið sem að okkur er rétt, en það er líka ábyrgðar og samvinnu. er leið sjálfsvirðingar þess sem þolir að hlusta á aðra og vill aðlagast samfélaginu aftur. Nei er leitin að sjálfum sér í reiðum röddum eigin höfuðs.


17. febrúar 2011

Ég

Ég átti leið um Eiðistorg í fyrra. Þá voru þar þrír strákar með tombólu. Á leiðinni út varð ég vitni að þessu: Gömul hjón komu paufandi arm í arm og stöldruðu brosandi við hjá strákunum. "Jæja strákar, svo þið eruð með tombólu" sagði karlinn ansi glaðbeittur. "Eru þið að styrkja eitthvert málefni?" Strákurinn í miðjunni horfði upp á kallinn og svarði "Já". ....."Og hvaða málefni?" Nú litu hinir peyjarnir niður á tærnar á sér. "Mig" svaraði strákurinn.


Ólafur Ragnar Grímson forseti var í Silfri Egils á sunnudaginn var. Það er glæsilegur maður, Ólafur. Ég þekki útlenskan mann sem hitti Ólaf Ragnar í heldur hversdagslegri móttöku á Bessastöðum og heillaðist meira af forsetanum en nokkru öðru á þessu landi náttúruundranna. Ótrúlegt að örþjóð eigi slíkan mann, sagði þessi skynugi og víðföli vinur minn hvað eftir annað. Þó gat hann ekki hafa séð þann Ólaf, sem mest af öllum ber, stríðsmannin sem lætur engan eiga neitt inni hjá sér og lifir allt af. Kemur eins og köttur niður á fæturna, þegar vaxið er lekið af vængjunum í hita sólarinnar. Og eins og góður bardagamaður kemur Ólafur sífellt á óvart og finnur vígstöðu sem enginn annar sá. Nú situr hann á krossgötum í stjórnkerfi landsins, sem áður voru ekki til og ákveður einn síns liðs örlög laga sem Alþingi setur. Enginn veit hvað hann gerir næst.


Samt skyggir hjúpur dapurleikans á þessa glæsilegu persónu. Segir nokkur maður oftar "ég" en Ólafur Ragnar forseti og hví þarf hann sífellt að halda á lofti eigin orðspori? Minna á gervileik sinn, menntun og mannkosti. Og hvers vegna kemur alltaf upp hjá honum þessi saga um hann hafi farið um allan heim eða allt land "að undanförnu" og talað við fjölda manna, í höll og hreysi? Hvaða leynivinir Ólafs eru þetta? "Minn herra á aungvan vin" segir Facebookvinur minn og hittir naglan á höfuðið. Hvar sem afburðamaðurinn Ólafur Ragnar kemur og hvað sem hann gerir þá fer hann vinalus á næsta stað. Fyrir hvaða málstað hefur þessi mikli stríðsmaður barist, að eiga ekki eina einustu taug í öllum þeim fjölda sem kynnst hafa honum, í skóla, í stjórnmálum, í stafi? Maður hefur talað við ófáa þeirra. Málstaðurinn er "Ég".


Norðmenn áttu annan Ólaf, Ólaf konung, föður Haraldar sem nú situr. Þennan kóng elskuðu þeir heitar en aðra menn og áttu af honum mynd í hjarta sínu. Þessi mynd er reyndar til sem raunveruleg ljósmynd. Kong Olav på trikken. Hann situr í sporvagninum við hlið óþekktarar konu klæddur fábrotnum skíðagalla með stafina hjá sér og sýnir verðinum miðann sinn. Það eru ólíkir þjóðhöfðingjar þeir nafnar og það eru ólíkar þjóðir sem hvor hampar sínum Ólafi.


Ég tilheyri þjóð Ólafs Ragnars. Nú hafa tugir þúsunda þjóðarinnar ákallað Ólaf í þeirri bæn að hann stöðvi gildistöku nýrra Iscevelaga. Við eigum ekki að borga fyrir misheppnað peningabrall einkafyrirtækis er sagt. Samt hefur enginn þessarra mótmælenda fundið neitt því til foráttu að almenningur borgi upp í topp íslenskum viðskiptavinum Landsbakans, sem sumir voru blekktir og sumir blindaðir af græðgi. Nei, málið er að við eigum ekki að borga fyrir svik okkar manna gagnvart útlendingum, þó við bætum að sjálfsögðu svik sömu manna gagnvart okkar fólki upp í topp. Málstaðurinn er "Ég".


Iscesvae var svikamilla. Tombóla bíræfinna stráka sem ekki hiku að taka við peningum venjulegs fólk og góðgerðafyrirtækja til eigin brúks og vissu að þeir gætu ekki staðið við sín orð. Þeir söfnuðu peningum frá gömlu fólki fyrir málstaðinn "Ég". Um það er aldrei rætt á Íslandi hvaða afleiðingar svona framferði eigi að hafa. Nú safna Íslendingar undirskriftum fyrir sama málstað, "Ég", "Við Íslendingar". Ólíklegustu menn koma í bljúgri bæn til Bessastaða knúðir af hinum mikla málstað. Þessu til undirbúnings kom Ólafur Ragnar fram í sjónvarpinu. Vinalaus spinnur forsetinn að vana vef eigin mannkosta og málar með orðum myndir af mikilfenglegri þjóð, sem stundar viðskipti eins og þeir bestu í heiminum og býr að sterkari lýðræðishefð en nokkir aðrir. Mér líður illa að horfa á þetta.


Þetta er ekki það Ísland sem ég vil búa í. Þetta er ekki sú landsýn sem ég vil hafa á hverjum morgni þegar sólarljósið lyftir fjallakollunum upp úr rökkrinu og maður vaknar senn til starfa sinna. Þjóð sem gerir það að lífskalli sínu að afneita kröfum án þess að íhuga málið frá annari hlið en eign buddu og fyllist í raun stolti yfir bíræfnum strákum sem svíkja fé af saklausum vegfarendum hefur sjálf dæmt sig til útlegðar í eigin landi, eigin glæpanýlendu.

Ekkert efnahagshrun gerir landið jafn óbyggilegt og siðferði Ég-málstaðarins getur gert.

10. janúar 2011

Í vitlausri rútu

Mér er til efs að margir hafi vitað hvað þeir voru að samþykkja þegar ákveðið var að stofna til ríkisstjórnar undir merkjum velferðarsamfélags að norrænni fyrirmynd. En hugmyndin var góð. Eftir hrun voru engir nema fífl, sem frjálsum huga vildu enn samfélag byggt á alvitrum, algóðum markaði. Það vilja þeir einir sem tala hagsmunnum einhverra eftirhreyta hins skelfilega tíma. Það var komið að öðrum að spreyta sig sagði þjóðin. Þá kom fram þessi hugmynd um norræna velferðarsamfélagið. Norðurlöndin stóðu af sér kreppuna og lifa betra lífi en önnur lönd. Þetta eru grannar, frænkur og vinir og ekkert nærtækara en að herða á pólitískri samfylgd við þessi lönd í rústunum eftir maníukast Íslands. Kratarnir, fjölmennastir á þingi eftir kosningarnar, fengu samt svo vænt högg á hægri síðuna, að Blairistarnir máttu þegja meðan norræna velferðarstjórnin var smíðuð. Manni fannst þá eins og þeir hlytu að vera manna spældastir í þessu ríkisstjórnarsamstarfi, að hvefa á vit forræðishyggju, skattlagningar og nostalgíu nægjuseminnar.

En þetta var auðvitað tóm vitleysa. Hvernig geta kratar annað en verið himinlifandi yfir hugmyndinni um norræna velferðamódelið? Þetta er hin erkikratíska hugmyndafræði. Íslenskir kratar eiga að þakka fyrir vinstrigræna leiðbeiningu inn á brautir hins norræna kratisma, með sinni forræðishyggju, skattlagningu og nægjusemi. En líka með sínum kapítalisma, frjálslyndi og einstaklingsfrelsi, sem er hluti af kokteilnum. Og síðast en ekki síst, sínum pragmatisma sem leitar samstarfs við önnur lönd, horfir á árangur frekar en eigið æruskinn og sér réttlæti og kjör í samhengi við raunveruleikann, en ekki ídealhugmyndina. Norrænu velferðarríkin eiga auðvitað að vera okkar fyrirmyndir og okkar bandamenn. Ekki Ameríka, ekki Kína, ekki Dubai, ekki Rússland, ekki Lúx., heldur Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Finnland og Færeyjar. Nágrannar okkar með velferðarpólitík, sem heimurinn öfundar. Við héldum okkur geta verið ein af þeim á sama tíma sem við sköruðum fram úr í frjálshyggju og skatthógværð. Betri en Svíþjóð í velferð, betri en Bandaríkin í auðferð. En svona er ekki lífið ekki í raun og uppúr rústum partýsins sem enginn vill borga kom ríkissjórnin tilbúin að framfylgja norrænu, skattdrifnu velferðinni.

En hér voru gerð hrikaleg mistök. Menn sváfu á verðinum. Alvöru vinstrisinnar vilja auðvitað ekki þetta auðvaldssull, sem norrænu ríkin hafa kokkað undir fölskum fána. Ríki sem mynda kúgunarbandalag með AGS gegn frændum sínum, láta réttlætið víkja fyrir hagtölum mánaðarins og mynda hiklaust bandalag með annarri eins birtingarmynd helvítis og Evrópusambandinu eiga enga samleið með okkur. Með mér.

Gamlir sölumenn Neistans, kaldastíðsjálkar úr austrinu, þjóðernissinnar og byltingarfólk þessa lands vilja enga andskotans norræna velferðarstjórn. Þau vilja fánann á loft og frekar þann versta.

30. desember 2010

Íslenska svarið

Fyrst nú er að verða tímabært að kveðja öldina sem leið, áratug eftir kampavínsflaum þúsaldarhátíðarinnar. Tuttugustu öldinni er lokið og okkur verður það senn ljóst.

Tuttugasta öldin á Íslandi hófst með því að landið tengdist umheiminum með símastreng. Hann var umsvifalaust notaður til að lýsa yfir sjálfstæði, "Í þennan síma talar sjálfstætt fólk í eigin landi". Þetta hefur síðan verið viðkvæði Íslendinga hvort sem þeir tala í síma, míkrafón eða talstöð og reynst svo haldgott að fá dæmi eru þess að jafn fámennur hópur hafi náð að beygja stórveldi heimsins með einþykkju sinni, amk fá dæmi utan Asterix bókanna. Bandaríska heimsveldið þurfti að hlýða dyntum hinna sjálfstæðu Íslendinga í slíkar öfgar, að einn þeirra heimsfrægasti utanríkisráðherra, Henry Kissinger, getur loks sofnað svefninum langa í friði eftir að hafa lýst því yfir í ævisögu sinni, að Íslendingar væru heimtufrekasta og þvermóðsufyllsta þjóð í heimi. Og á hinn bóginn, austur í Kreml, þurfti Alþjóðasamband kommúnusta, Komintern, að samþykkja undanþágu frá sínu helgasta boðorði handa Íslendingum. Íslenskir kommar máttu vera þjóðernissinnar dauðans í félagsskap, sem snerist um hið gagnstæða, alþjóðahyggju. Þetta fékkst með því að svara ekki öðru í síma, en að hér byggi sjálfstæð þjóð í eigin landi. Og menn minnast þess auðvitað hvernig nýlega fór fyrir breska sjónvarpsspyrilinum sem ætlaði að grilla hortugan dvergþjóðarforseta, þegar símsvarinn fór í gang. Meiri jöfrar en hann hafa gefist upp fyrir íslenska svarinu.

Í útlöndum er maður iðulega spurður hvernig svo fámennur ættbálkur geti starfsrækt sjálfstætt þjóðríki og maður svarar vitaskuld að á Íslandi búi sjálfstæð þjóð í eigin landi. Það var fyrst fyrir tveimur árum að ég byrjaði að skilja spurninguna, sem nú orðið leitar á mig eins og hvern annan útlending. Þetta er eins og að hafa smitast af óværu. Eitt er fólksfæðin á Íslandi, en hitt er mér meira undrunarefni að þjóð, sem maður skyldi ætla að þyrfti á öllu sínu að halda til að mynda starfshæft ríki, skuli geta hent frá sér talentum og peningum í botnlausa sérhygli, nebútisma og klíkumenningu, en þó státað að slíkri velmegun. Svo til öll opinber embætti eru skipuð prímó rétta einstaklingnum, sekúndó hæfasta einstaklingum. Og prívatgeirinn er varla neitt skárri, þar sem forstjórar stórfyrirtæjanna halda heilsu sinni og stafi með löngum göngutúrum í Heiðmörk, saman í hóp.


Svarið við þessari þraut er að Íslendingar hafa aldrei verið sjálfstæð þjóð í eigin landi. Vita ekkert hvað það er að vera sjálfstæði þjóð, fyrr en kannski bráðum. Sjálfstæð þjóð getur ekki hagað sér eins og við höfum gert, frekar en sjálfstæður einstaklingur getur hagað sér eins og heimtufrekur unglingur. Það er ekki þar með sagt að Íslendingar séu lélegri þjóð en aðrir, en nú fyrst reynir á okkur að svo mörgu leyti. Það er ekki bankahrunið sem ég er að tala um, heldur sá paradísarmissir sem varð þegar kalda stríðinu lauk. Íslendingar stukku fram sem sjálfstæð þjóð í skjóli anglósaxneska heimsveldisins, fyrst Breta svo Kana. Heimsstyrjöldin færði okkur nútímann og peninga og svo tók Kalda Stríðið við með stórveldi á báðar hendur sem vildu hygla okkur. Þegar kalda stríðinu lauk misstum við undramáttinn. Hvað skyldu Kanarnir hafa sagt við pirraðan og ómögulegan íslenskan Oddsson með heimsmynd Björns Bjarnasonar í höfðinu? Ætli þeir hafi haft húmor til að benda honum á Evrópusambandið?

Raunveruleiki tuttugustu aldarinnar er horfinn og nú eru Íslendingar loks sjálfstæð þjóð í eigin landi og vita ekki sitt rjúkandi ráð.

9. desember 2010

Bólu-Hjálmar analýserar Icesavemálið

Í tilefni dagsins er pistill eftir Bólu-Hjálmar. "Viðureign Gamla bónda og Hollendinga" úr "Þáttur af Gamla Péurssyni", Amma I. Þjóðleg fræði og skemmtun. Finnur Sigmundsson, Reykjavík 1935-40

Þess er getið eitt sumar, að Gamli bóndi reri til fiskjar innan af Eyjafirði norður á svokölluð Ólafsfjarðarmið. Hann var við sjötta mann..........sáu þeir í Djúpunum hvar hollensk dugga var að fiski. Gamli mælti við menn sína: "Vér skulum finna fiksiskip þetta og fá okkur í skálinni gott vín..".....Þeir Gamli festu skip sitt við dugguna og gengu upp. Hollendingar fögnuðu þeim vel sem þeim var títt. Voru þeir 10 eða 12 að tölu. Gamli litast nú víða um á skipinu og sér þar margskyns gæði. Kemur honum til hugar að hertaka skipið og flytja inn á Eyjafjörð. Veit hann að það er óheilagt undir danska krónu hér við land. Ræðir hann þetta við menn sína hljóðlega og verða þeir allir á það sáttir. Síðan tekur hann þá hollensku og færir í bönd utan stýrimanninn einn lét hann lausan og setjast að stjórn......Stýrði sá útlenski þó nauðugur væri, en Gamli og menn hans settust að drykkju og héldu sér veizlu góða af efnum skipsmanna. ........

...Gekk nú ferðin harðlega inn á Eyjafjörð, en er kom inn í Bakka-ála sáu þeir Gamli hvar tvær duggur hollenzkar komu eftri þeim á mestu hraðsiglingu og höfðu uppi alla toppa......Hann mælti við sína menn að þeir skildu allir 5 verja annað borð skipsins....en kvaðst sjálfur annað borðið verja meðan kostur væri. Þeir aðkomnu spurðu Gamla, hvort hann vildi ekki gefa upp skipið og leysa þá bundnu heldur en leggja sig og sína menn í hættur og sæta síðan afarkostum. Gamli kvað það engan kost að óreyndu, og dugi nú hver sem má og falli heldur með drengskap, ef falla skal......Stóð bardaginn lengi dags. En svo kom um síðir, að upp var gengið á það borðið er hásetar Gamla vörðu, og urðu þeir handteknir og bundnir. Voru þá fljótt og leystir allir þeir hollensku og gengu þeir í lið með löndum sínum. Var nú sótt að Gamla með liðsfjölda öllu megin....Var hann nú handtekinn og síðan bundinn. Var hann móður mjög en lítt meiddur, en flestir þeir er á fundinum voru, sættu meiðslum og skaða. og mælt er að tveir menn af Hollendingum hafi bana hlotið.

Nú var um rætt, hvert starff Gamli skyldi þola fyrir tiltæki sitt og var það úrskurður eftir fornum skipalögum að hann skyldi dragast þrisvar undir kjölu og síðan frígefast, ef hann af lifði, en það var fárra sem engra af að lifa. Var nú straffi þessu fullnægt, og kom Gamli upp með lífi í þriðja sinn. Var hann þá þrekaður mjög, og er mælt að hann hafi þá beðið að höggva af sér höfuðið sem snarast. Þeim Hollendingum þóttu mjög firn í vera, hvað sá maður afbar og ekki minna um hans hugprýði og hetjulega vörn. Var hann nú með öllu laus gefinn og menn hans, og síðan var hann sæmdur virðulegum gjöfum af öllum skipum fyrir hetjuskap sinn og stórmannlegt tiltæki. Sór hann þeim eið, að hann skyldi aldrei glettast við Hollendinga framar......Varð saga þessi víðfræg, jafnvel erlendis, og þótti flestum sem enn byggi norðmannasál í víkingshjarta á Íslandi.