26. mars 2011

Kosningar á Kleppi

Sumarið 2008 kom ég heim frá Noregi þar sem fjölskyldan bjó um hríð meðan mesta góðærið geysaði á Íslandi. Það var einkennileg heimkoma. Á leiðinni hitti ég norskan kunningja sem kvaddi mig innilega. Hann greip hönd mína báðum lófum og þakkaði mér fyrir. Þakkaði mér kærlega fyrir að hafa keypt Illum, Magasin du Nord og Hotel D'Anglaterre. Hann var fráskilinn danskri konu, sagði hann og hefði aldrei þolað Kaupmannahafnarsnobb hennar. "Og nú eru þið Íslendingar búnir að kaupa allt sem hún snobbaði mest fyrir. Gott á hana!" Ég stóð eftir ringlaður. Var það nú orðinn minn brandari að einhverjir grínistar á Íslandi keyptu fyrirtæki
hist og her.


Á Íslandi ríkti þetta einkennilega ástand sem við munum vel. Bankakerfi gott fyrir 10 þúsund milljón milljónir hafði veitt peningum eins og stórfljóti yfir landið. Flottasti bílafloti heims hringsólaði um götur og jökla, gulur kranaskógur gnæfði yfir rísandi höllum og gapandi grunnum ennþá stærri drauma. Þeir alstærstu, eins og Kópavogsmanhattan enn á teikniborðinu, því veislunni átti aldrei að ljúka. Hver maður sinn skammt af góðæri. Sendibílstjórinn sem sótti dótið okkar var líka nýfluttur heim frá Noregi og við töluðum um ástandið eins og gamlir vinir. Blessaður vertu, sagði hann, þetta er miklu betra en áður. Ég kom heim árið 2006 og þá var ruglið svo yfirgengilegt að ég flutti bara til baka aftur, en núna hefur sem betur fer hægt á öllu bullinu.


Ísland var í maníu, það var geðveikt. Ranghugmyndakerfið snérist um sérstöðu Íslendinga, víkingaeðlið og dugnaðinn annars vegar en hins vegar um mátt fjármagnsins, frelsi og haftaleysi. Þjóð sem þekkti ekkert nema höft, fyrirgreiðlsupólitík og nebútisma hafði lagt viðskiptaheiminn að fótum sér með nokkurra ára reynslu af frjálsri utanríkisverslun og nokkurra mánaða reynslu af einkabönkum í farteskinu. Þannig eru Íslendingar! Og þetta er bara blábyrjunin, kvað rödd geðveikinnar. Innsæið var ekkert, það er hluti veikinnar. Enginn sá neitt athugavert. Geðveiki Íslands varð þannig mín geðveiki.


Maníukastið endaði, eins og mörg maníuköst, á Kleppi. Kleppur var hrunið, AGS og endalok frelsisins. Við vorum öll send á spítalann og fengum meðöl, hver maður sinn skammt. Við erum svift, beitt þvingunum og fáum beysk meðöl. Hver tekur ánægður meðal við of góðum fíling? Það er vandi allrar maníumeðferðar. Svo orkar allt líka tvímælis, ekki síst þegar valmöguleikarnir eru fáir. Var þvingunin réttlætanleg og ekki þyngri en nausyn krafði? Gerir meðferðin gagn eða kannski skaða? Hver er reynslan af AGS, hver er reynslan af Kleppi? Innlögnin ein læknar engan, og meðölin, þau lækna heldur engan. Þau stöðva kastið og færa okkur nætursvefn, en lækningin kemur að innan. Eins og sá sem situr inni á geðspítala þurfum við Íslendingar að ákveða hvort við viljum verða normal. Vera eins og hinir, og eins og hinir vilja að við séum. Leiðin getur verið löng og yfir margar hindranir. Ein sú erfiðasta eru fordómarnir, fordómar annarra og eigin fordómar gagnvart sjálfum okkur. Sjálfsvirðingin er lykillinn að bata, þar sem við nú sitjum saman á Kleppi að jafna okkur eftir maníukastið. Við getum kennt hinum og þessum um ófarirnar og stikkfríað okkur sjálf af ábyrgð, en hrunið er eftir sem áður staðreynd og þar með okkar vandamál. Íslandsmanían var okkar geðveiki og við þurfum að sigrast bæði á sjálfsásökunum og vænisýki. Meðferðin var komin á skrið og gekk að vonum þegar raddirnar náðu aftur yfirhöndinni. Kjósum á Kleppi sögðu þær. Kjósum um aukaverkanirnar meðalanna. Kjósum aftur um Icesave. Við ættum að muna að á þessum tíma var loks komin samstaða á Alþingi um málið og sú samstaða endurspeglaðist í samfélaginu, sýndi skoðanakönnun. En um leið og röddin yfirgnæfði rökhugsunina riðlasðist allt og geðveikin tók völdin. Og hvernig er ástand okkar nú nokkrum dögum fyrir kosningar? Við erum ráðvillt, reið og hrædd. Allar vondu tilfinningarnar frá dögum hrunsins rifjast upp og er veifað sem gunnfánum þessarar skelfilegu kosningabaráttu. Formælingar, hatur og morðhótanir. Áróður sem maður veit ekki frá hvorri hliðinni kemur, því sömu hörmungar eiga dynja yfir, hvort sem sagt er já og nei.


Geðveikin ræður aftur för og innsæið er ekkert. Allt tal um rökræður og upplýsingar eru innantómt hjóm. Sér enginn í hverju vandamálið liggur? Það eru kosningarnar sjálfar. Lýðræðislegar kosningar verða að fjalla um vitræna spurningu og val milli ólíkra kosta. Venjulega kjósum við okkur fulltrúa sem við veitum umboð til ákvarðana. Er það kerfi kannski ónýtt? Hvað á að koma í staðinn? Auðvitað má líka kjósa um einstök mál, en þá verða kostirnir að vera skýrir og niðurstaðan að hafa ljósar afleiðingar. Kosningarnar á laugardaginn fela ekki í sér spurningu um tilteknar leiðir og niðurstaðan gefur ekkert svar um hvert skuli haldið. Það er bara spurt um samþykki eða synjun þessa tiltekna milliríkjasamnings. Það er svo annað mál að kosningarnar hafa auðvitað afleiðingar, að mestu ófyrirsegjanlegar afleiðingar. Um þetta á að kjósa og það er ekki nema vona að mörgum líði illa og viti ekki sitt rjúkandi ráð.


Rökin í málinu eru rökin að baki samningnum. Þau eru byggð á efnahagslegu, lögfræðilegu, pólitísku og siðferðislegu mati sérfæðinga, sem hins vegar taka ekki sjálfir ábyrgð á undirskriftinni. Þann kaleik ætluðu stjórnmálamennirnir að bergja, því til þess eru þeir kosnir, þegar forsetinn sagði nei. Þetta væri kaleikur þjóðarinnar allrar, hver maður sinn skammt! Við göngum sem sagt að kjörborði nú, ekki til að segja hvað við viljum, heldur til að taka ábyrgð eða hafna ábyrgð á samingi sem enginn hefur lesið og breytir engu þótt að læsi. Við greiðum hvort sem er atkvæði eftir því hverjum við treystum best, hvaða lögfræðingi, álitsgjafa, fjölskyldumeðlimi, spekingi eða angurgapa við treystum best. Af því að röddin sagði að við treystum ekki þeim sem við höfðum valið til að fara með mál eins og þessi.



Og menn láta eins og allt sé í himna lagi, eins og þetta séu ósköp venjulegar kosningar. Þær fari sí o só, því svona sé lífið. Ríkisstjórnin ætlar að sitja áfram hvernig sem fer og forsetinn auðvitað líka. Samt sýnir þetta mál augljóslega, að stöðvi forseti gildistöku laga og vísi í þjóðaratkvæði, þá verður kosningin að snúast um embættislíf þeirra sem samþykktu lögin eða neitaði staðfestingar. Annars er ekki heil brú í kerfinu. Það er nefnilega undir hælinn lagt hvort kosning um lögin sjálf feli í sér nothæfa spurningu, en kjósendur geta þá stöðvað landsstjórnina fari hún villur vegar, en forsetinn verður um leið að leggja sitt embætti undir, því einum manni má ekki líðast að lama stjórn landsins í óþökk kjósenda.

Kosningarnar eru staðreynd, rétt eins og manían og hrunið, sem ekki tjóir að æðrast yfir. Við verðum að kjósa. En við getum gengið að kjörborðinu með því hugarfari sem við sjálf viljum. Okkur býðst að segja eða Nei. er að þiggja meðalið sem að okkur er rétt, en það er líka ábyrgðar og samvinnu. er leið sjálfsvirðingar þess sem þolir að hlusta á aðra og vill aðlagast samfélaginu aftur. Nei er leitin að sjálfum sér í reiðum röddum eigin höfuðs.


1 ummæli:

Unknown sagði...

Eins og í öllum huglægum bata þá hefst endurreisn íslensku þjóðarinnar á; 1: við verðum að viðurkenna að "þetta" sé vandamál. 2: við verðum að viðurkenna að vandamálið sé okkar og engra annara. 3: við verðum að sjá að lausnin liggur hjá okkur en ekki einhvers staðar úti í heimi. Þá fyrst getur þetta samfélag hafið alvöru bataferli.
Hafðu það gott frændi. H. Helgi H.