10. apríl 2011

Endurtekið efni

Sagan um Æseif heldur áfram. Ég leyfi mér að birta endurtekið efni, pistil eða sögu, sem var skrifuð hér á bloggið 11.október 2009, en ekki birt fyrr en í janúar 2010. Hef stytt þetta hér.


Dag nokkurn í fyrra haust lá Range Rover á hvolfi á miðri götunni okkar. Út úr flakinu dró löggan strákinn í næsta húsi, ósáran en alveg útúrspíttaðan. Bíllinn karlsins á horninu hafði sýnilega orðið á vegi hans og karlfautinn lét dæluna ganga með svívirðingum yfir skelkaða nágranna mína, foreldra ökumannsins, sem komnir voru á vettvang. Eftir þetta er lífið í götunni ekki eins og áður.......

Því er ég að rifja þetta upp nú að ég heyrði fyrir skemmstu frá frænda mínum, sem þekkir náið til fjölskyldunnar, að þaðan sé fátt góðra frétta. Útistöður við karlinn á horninu vegna bílviðgerðarinnar hafa heltekið fólkið, og það virðist hafa fengið verkstæðisreikninginn á heilann. Stórfjölskyldan er komin í hár saman og hver höndin upp á móti annarri.... Allir keppast um að segjast vilja borga minna en hinir. Svo rífst þetta fólk og þráttar innbyrðis fram og til baka án niðurstöðu. Samt er þessi krossbölvaði viðgerðarreikningur ekki nema lítill hluti af öllu peningatapi þessa fólks. Það segist vilja standa í lappirnar með því að standa upp í hárinu á karlinum, en hugsar ekkert um að standa í lappirnar gagnvart sjálfu sér. Sonurinn hefur enn ekki verið látinn svara fyrir eitt eða neitt neitt. ........

Þau barma sér endalaust yfir örlögum sínum og fjölskyldunnar, en minnast ekki einu orði á neinn hinna sem tapað hefur fé og æru fyrir tilstilli sonarins.

Hér er um tvennt að ræða segir frændi. Annað hvort er þetta séræktað fjölskyldulægt siðleysi eða það er skömmin og sektarkenndin sem fær fólkið til að líta undan og loka augunum svo þau sjái ekki í eigin barm. Það forðast allir aðalatriðið. Allir hafa tapað fjársjóðum sínum, líka þeir sem allan tímann voru á móti þessum umsvifum. Þeir töpuðu sakleysi sínu þegar hinir töpuðu peningunum sínum.

Saman segist þetta fólk vera að verja efnahaglegt sjálfstæði fjölskyldunnar og stolt sitt, en sér ekki að með hegðun sinni fyrirgerir það sjálfstæði sínu og svívirðir heiðurinn. Það rís ekki undir verkefninu og ferst í storminum. Enginn vill láta neitt af hendi og því missa allir allt.

Engin ummæli: