31. janúar 2010

Íslenskir sigrar

Þetta eru góðir dagar. Íslendingar unnu í gær verðskuldaða bronsmedalíu í handboltakeppni Evrópuþjóða og eiga þar að auki afreksmann á heilsmælikvarða í sínu allra besta formi um þessar mundir. Sá er vitaskuld Ólafur Ragnar Grímsson, president. Vinur minn, írakskur læknir í Noregi hefur hitt Ólaf og lýsir honum sem afburðamanni. Þetta sagði hann mér þegar við kynntumst árið 2006 og endurtók við ýmiss tækifæri. Hann hafði hitt Ólaf á Bessastöðum í tengslum við Norræna lungnalæknaþingið hér um árið. Það er með ólíkindum að 300 þúsund manna þjóð skuli eiga slíkan einstakling, sagði þessi vinur minn og ég vissi ekki alveg hvað segja skyldi við því. Nú hefur komið í ljós hver afburða mannþekkjari dr. Al-Azawy er. Íslenski presidentinn hefur ummyndast úr valdalausum selskapsforseta hins íslenska dvergríkis í einn fremsta baráttumann heims í uppreisn gegn ósóma kapítalismans. Hann hefur gert vígorð Davíðs Oddssonar að alþjóðlegu herópi: "Við borgum ekki skuldir óreiðumanna". Ég stóð frammi fyrir vali sagði Ólafur, hvort ég stæði með auðmagninu eða lýðræðinu. Ég valdi lýðræðið.

Og hver er svo lykillinn að þessari metamorfósu Ólafs Ragnars Grímssonar. Jú, nákvæmlega það sem vinur minn setti í samhengi, hann er afburðamaður frá dvergríki. Það skiptir engu hversu liðugt president Grimsson krítar í útskýringum á íslenskri pólitík við erlenda fréttarýna, hvatki er missagt er af hans hálfu verður aldrei leiðrétt. Það er ekki fjallað um íslenska pólitík í heimspressunni á hverjum degi. Og fyrirfram veit auðvitað enginn í heiminum neitt um íslensk stjórnmál frá Hriflu-Jónasi til okkar daga, svo Grimsson getur sagt hvað sem er þess vegna. Menn vita ekki einu sinni hvað forseti Íslands er, svo president Grimson getur hæglega látið sem hann sé pólitískur leiðtogi þessa lands. Ekki miklar líkur á að það verði leiðrétt að einhverjum, sem kynni að eigna sér þann sess frekar. Þannig er þessi baráttumaður lýðræðisins í heiminum nánast valdaránsmaður heima hjá sér, þegar hann fer um lönd og rekur sinn prívatpólitíska áróður þvert á ríkisstjórn, sem þó á að heita studd af meirihluta íslenskra þingmanna. Raunar má segja í ljósi atburðarásarinnar, að hann fari um í umboði stjórnarandstöðunnar. Ólafur Ragnar Grímsson fer um heiminn í umboði Sjálfstæðisflokksins og boðar uppreisn alþýðunnar gegn kapítalismanum. Afburðamaður er varla ofmælt.

Hvað er hér á seyði? Jú, Ólafur Ragnar hóf sinn ferill sem íslenskur forseti. Slíkir eru taldir tákngervingar, fyrst og fremst. Eiga, hygg ég, að gera það helst að bera menningarbrag og þjóðlega reisn og koma vel fyrir þegar tigna gesti ber að garði. Svo fór smám saman að bera á dáldið sérstökum prívatpraksis Ólafs forseta. Hann var til dæmis allt í einu orðinn áberandi umhverfisverndarsinni, alþjóðlegur umhverisverndarsinni. Þetta kom Ísendingum á óvart, sem aldrei höfðu tekið eftir neinum sérstökum umhverfisverndaráhuga forsetans á heimaslóðum, né blóðheitri lýðræðishugsjón þegar hatrammar deilur stóðu um virkjunina miklu, sem hrint var af stað með hraði í þann mund sem almenningsálitið snérist gegn henni. En president Grimsson hefur á undanförnum árum sómt sín vel á mörgum ráðstefnum um orku og umhverfismál, enda Ísland umhverfisvænasta land í heimi. En þeim sem þar sátu hefur kannski ekki öllum verið jafn ljóst að þessari staðreynd ráða einvörðungu náttúrulegar aðstæður, fallvötn og jarðvarmi, en ekki president Grimsson's pólitískir leiðtogahæfileikar. Hér var hins vegar að fæðast nýr maður, sem nú stígur fram á sviðið fullskapaður og réttir heiminum nafnspjaldið sitt: Ólafur Ragnar Grímsson, sjálfstætt starfandi stjórnmálamaður á alþjóðavettvangi.

Slíkir höldar eru reyndar ekki margir í heiminum. Þetta eru helst fyrrum stjórnmálamenn stórríkja, eins og Clinton og Al-Gore, sem geta í krafti athyglinnar sem þeim fylgir haft pólitísk áhrif án annars umboðs en eigin orðstír og fjölmiðlafimi. Meira að segja maður á borð við Tony Blair virðist eiga í mesta basli við að komast í klúbbinn. Pólitíkusar af þessari tegund velja sjálfir baráttumál, t.d. umhverfismál eða fátækt og auðvitað ekkert nema gott um það að segja. Ólafur Ragnar okkar kemur auðvitað inn í klúbbinn undir öðrum formerkjum, sem president. Rétt eins og Vigdís vakti heimsathygli sem president og kona, en hún fór öðru vísi að, enda líklega úr öðru efni gerð. Í krafti titilsins nýtur Ólafur nú athygli öflugustu fjölmiðla heims fyrir óvænt inngrip í milliríkjadeilu sem sjálft breska heimsveldið er viðriðið. Þar lætur hann dæluna ganga með slíkum boðaföllum að Hugo Chavez mætti stoltur við una. Þetta vekur ekki litla athygli og um leið hefur president Grimsson af sjálfsdáðum fundið nýtt málefni að berjast fyrir, uppreisn almennings gegn eitruðum stórkapítalisma. Lýðræði eða kapítalismi! þrumar Ólafur og má hann heill mæla. Hitt er svo annað mál, að þetta er sami maður og fyrir skemmstu flaut á þessum eitraða fjárstraumi til glæstra konungshalla í fjarlægum löndum. Svo hitt líka annað mál, að preident Grimson er ekki lengur sá forseti Íslands sem hann var kosinn, heldur umskiptingur í lýðveldisvöggunni. En hvað um það þó nokkrar sálir á Íslandi þurfi að sjá á bak forseta sínum, ef hann getur breytt heiminum.

27. janúar 2010

Hvert miðar?

Ég skrifaði færslu 11. október 2009, sem birtist ekki fyrr en nú. Hygg að mér hafi sjálfum blöskrað svo bölsýnn endirinn að ég heyktist á að senda þetta frá mér. Fannst þetta ekki góður skáldskapur. En það er fróðlegt að lesa þetta núna og spyrja hvort sé klénna, þessi skáldskapur eða raunveruleikinn.

25. janúar 2010

Þyngra en tárum taki

Vel klæddur maður situr við virðulegt skrifborð og grúfir sig yfir skjalabunka. Umhverfis hann myrkur, en ljósið sem fellur á pappírinn lýsir upp skarpleitan vanga mannsins. Innan seilingar slurkur í kristalsglasi. Svo fellur dropi á pappírinn, tær, stór dropi sem pappírinn sýgur fljótt upp. Svo annar og innan skamms hristist maðurinn allur af áköfum ekkasogum. Þetta er Tryggvi Gunnarsson, aleinn með Sannleikanum og grætur.

Á morgun hafa þeir Palli boðað blaðamannfund til að tilkynna þjóð sinni að enn um sinn frestist að hún fái þær verstu fréttir sem nokkur nefnd hefur fært þjóð sinni. Þeir ætla að hnykkja á því hversu þessi tíðindi séu ill og þeir ætla að vera persónulegir og dylja í engu hversu erfitt þetta starf hefur verið. Ekki betra en Hafskipsmálið eða gjaldþrot SÍS, svo öll þau ósköp séu nefnd sem lögð hafa verið á einn mann. Hvað er hann að segja munu kannski einhverjir hugsa? Tengjast þessi mál eða er eitthvað svo svakalegt og ókunnugt við hin gömlu mál, sem gerir þau sambærileg við sjálfar hamfaririnar, hrunið? Þetta verður dramatískur fundur.

Þeir ætla að vara við því að fólk missi á sér tökin þegar sannleikurinn verður birtur. Ekki meiða eða eyðileggja, heldur nota reiðina á uppbyggilegan hátt munu þeir segja. Og svo ætlar Tryggvi að leggja til að þjóðin fái tveggja til þriggja daga frí til að lesa skýrsluna. Þetta höfðu þeir rætt og veltu því fyrir sér hvort margir mundu fatta djókinn. Alla vega mundi þetta vekja athygli. Jú, kannski myndi einhver fatta þetta. Skýrslan á sem sagt að koma út fyrir páskana. Á skírdag. Nægur tími til að lesa hana og sérstaklega við hæfi að verja til þess föstudeginum langa. Svo ber skírdag í ár upp á 1. apríl.

5. janúar 2010

Miðdepilinn

Forseti Íslands hefur unnið afrek. Hann er nú sá miðdepill heims sem nokkurn dreng undir dimmum fjöllum norðurhjarams getur dreymt. Embætti hans hefur hafist til þeirrar valdastofnunar að yfirstígur öll önnur á þessu landi, þegar hann ræður að stíga fram og skipa til málum. En allt kostar. Afrek forsetans fyrir hönd embættisins hafa kostað hann leyfarnar af þeim stuðningi sem hann hafði meðal þjóðarinnar. Pólitískt embætti manns án pólitískrar inneignar er niðurstaðan. Þversögn risin af rökréttri ákvörðun. Forsetinn kaus að vera sjálfum sér samkvæmur til að sanna að hann hafði ekki áður beitt valdi sínu af hlutdrægni gegn gömlum fjanda. En nú ríður á að gamlir fjandar komi honum til varnar þegar sótt verður að Bessastaðavirkinu. Þangað aka þeir ekki gæðingum sínum, heldur trojuhestum.

Allt í einu heyrir maður alls staðar upphrópanir yfir því hvað forsetinn hafi gert. Er hann snar vitlaus segir fólk. Svona geta veðrin snúist, í stað þess að bölva Icesave lögum tvö, sem allir vissu að voru vond en enginn vissi um hvað snérust, getur hinn nýji ofurforseti orðið miðdepill reiði fólks. Það er kannski ekki sá miðdepill sem drengi undir dimmum fjöllum dreymir.

Tóri ríkisstjórnin og kaupi sér tíma fram að kosningum sem öllum þótti í gær einboðið hvernig myndu fara, mun málsvörn hennar felast í því að vera björgunarsveit undir árás víkinganna sem nauðguðu Íslandi. Var ekki Ólafur þar? Hvað sýna myndirnar, hvað segja ræðurnar? Er Hr. Ólafur Ragnar Grímsson ekki sjálfur sá trojuhestur sem veitir forhertrum hægrimönnum og viðskiptadólgum skjól til að ráðast að björgunarliðinu? Enginn skyldi falli annars spá, þótt slíkt hafi margan hent, en nú munu einhverjir örugglega segja að Búsáhaldabyltingin hafi ekki lokið hlutverki sínu, báráttan um nýja Ísland sé hafin á ný. Forseti biður um þjóðarsátt og segist í því nafni hafna óvinsælum lögum staðfestingar. Hvað sem manni finnst um þá rökfærslu, þá er víst að enginn drengur fær þann draum uppfylltan að verða Churchill og Ghandi í einum manni.

4. janúar 2010

Í fjörunni á Bessastöðum

Aftur finnst manni ögurstund í sögunni, þessir dagar þegar beðið er efir kvittun forseta á Icesave-lög hin seinni. Maður er í aðra röndina þakklátur fyrir tillitssemi við seinfæra bloggara eins og mig sem forsetinn sýnir með því að draga málið á langinn. Fyrst eftir samþykkt laganna helltist yfir mig sannfæring um að ÓRG myndi ekki skrifa undir. Það kæmi honum lang best. Svo fór ég að efast, afleiðingarnar gætu orðið ansi afdrifaríkar og inn í þá atburðarás gæti forsetinn flækst undir öðrum paragröffum síns embættis, ef hér yrði stjórnarkreppa til dæmis. Þá gætu fjaðrirnar fokið skjótt úr hatti forsetans. Ólafur er í klípu, en hann er í raun í annarri og verri klípu en þessum Icesavehnút.

Sá hnútur er í raun ekki forsetans heldur þingsins og stjórnmálanna á Íslandi. Málið snýst í raun ekki um hvað ÓRG gerir, skrifar undir eða skrifar ekki undir. Icesvemáli lýkur ekki hvort sem hann gerir, því málinu er ekki pólitískt lokið. Annars vegar höfum við stjórnarmeirihluta sem sundruðu liði gekk að afgreiðslu málsins eftir þrautagöngu á þingi sem á sér enga líka. Skrifað var undir samning sem ekki reyndist almennilegur stuðningur við innan stjórnar og málið svo rekið afar linkulega að hálfu forsætisráðherra og flokks hennar, þó samstaða ríkti þeim megin við afgreiðslu. Á hinn bóginn er stjórnarandstaða sem engum dylst að hefur fyrst og fremst hugsað um eigin pólitíska möguleika sem veikleikar stjórnarinnar og eðli Iscesvae málsins hafa fært þeim í hendur. Uppgjörið við eigin fortíð var með þessu sama máli lagt til hvílu, en hinsta hvíla verður það ekki hvað sem heimskir kunna að vona. Ferill þessa máls í þinginu hefur reynst yfirgengilega sorgleg og kvalarfull upplifun fyrir okkur áhorfendur. Eftir stendur að þjóðin er öll á móti þessum samningi, nema þeir sem fyrir neyð vilja samþykkja ábyrðina. Lang flestir virðast samt á móti og eru á móti af alls konar ástæðum. Við þurfum ekki að borga eða getum ekki borgað eða ættum ekki að borga hvað sem öðru líður. Og nú sitjum við uppi með mál sem Aþingi hefur samþykkt, en samt þó varla. Mál sem landsmenn vilja fella án þess að nokkur samstaða sé um hvað annað eigi að gera. Umræðan er á því plani að telja samninginn sjálfan vera vandamálið sem þá hlyti að hverfa verði hann felldur. Essessaekki?

Forseti Íslands situr því nú á Bessastöðum að veltir milli handa sér gegnheilu klúðri sem komið er til vegna pólitísks forystuleysis, tækifærismennsku og skammsýni. Það er ekki honum að kenna hvernig fer sem fer, skrifi hann undir eða ekki undir. Málið er ónýtt og var það fyrir löngu. En eitt sýnir þetta mál, honum hefur tekist að gera forsetaembættið að pólitísku embætti, hver sem framtíð þess annars verður. Á þessu er þó einn hængur fyrir Ólaf. Í þessu pólitíska embætti situr maður án stuðnings. Stefna þessa forseta fylgdi sömu ógöngum og leiddu hrunið yfir okkur og sýn hans var sami heimskulegi belgingur sem heróp útrásarinnar var. Viðbrögð forsetans við hruninu urðu svo hin sömu og þeirra sem þar bera þyngsta sök. Sá forseti sem nú situr og lætur heiminn bíða eftir sér á sem sagt við annan vanda að etja en að ákveða hvort hann lyftir penna sínum. Hann sjálfur er eins og lögin sem hann veltir milli handa sér, formsatriði án innihalds. Tóm skel.