Mig dreymdi heimboð til fjölskyldu sem ég vissi að var fátæk og skuldum vafin. Hún bjó í íbúðarholuá ókennilegum stað í borginni. Fyrir utan stóð gamall lúxusbíll, bensínhákur með hestaflatölu heils afréttar. Brotin lukt og beyglað skott. Ég bankaði á dyrnar og var boðið inn. Anddyrið var þröngt og bætti ekki úr að reiðhjól, hlaupahjól, hjólabretti og pedalabílar barnanna lágu í gagnveginum. Undir kösinni glitti í rytjulega skó og slitin stígvél. Ofan á hrúguna höfðu ormarnir hent rifnum úlpugörmum sínum. Í stofunni gleypti amerískur hornsófi heimilsimenn og gest en flatskjár gnæfði andspænis og virtist ná upp í loft. Krakkarnir kútveltust í sófanum illa til hafðir og eftirlitslausir með nammiblandspoka á stærð við fótbolta. Fannst mér að fjarstýringin hlyti að liggja undir pullum því stöðugt skipti um stöðvar við hopp krakkanna, frá Al-Jazeera yfir í Cartoon Network yfir í fréttir á Samísku í norska ríkissjónvarpinu yfir í Leiðarljós, yfir í beina útsendingu frá krikketleik. Mér var nú boðið kaffi. Gekk húsfreyja fram í eldhús og upphófust ægileg hljóð, það hvein og nötraði eins og í ítalskri kaffivél með ónýta kvörn. Kom hún til baka með hið versta skólp í handmáluðum postulínsbolla. Þá var mér boðið að snæða, sem ég þáði. Stóð heimilsfaðir upp og tróð sér út á svalir, þar sem varla var stætt fyrir hann vegna risavaxins útigrills. Þegar hann lyfti lokinu dimmdi í stofunni. Svo kom hann til baka með matinn: eina sprungna pulsu makaða í einkennilegri tómatssósu svo minnti óhugnanlega á blóð.
Nú hef ég fengið þennan draum ráðinn af afar draumspökum manni. Honum fannst einsýnt að þetta boðaði enga hagræðingu í stjórnarráðinu og stórfelldan niðurskurð opinberrar þjónustu án vitrænnar forgangsröðunar.
10. maí 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Ég held þetta sé fyrir rigningu.
Það var nú aldeilis gott. Ekki veitir af rigningu núna til skola öskunni burt.
Skrifa ummæli