Var í veiðiferð í afdölum og hef tekið á móti fleiri hamingjuóskum með þennan eina fisk sem ég veiddi, en nokkuð annað sem ég hef afrekað undanfarin ár. Ég er byrjandi og rétt að kynnast þögulli, karlmannlegri samveru veiðiferðanna og þessari einrænu náttúruunun og hugrækt. Með þögninni tala veiðikarlar saman um það skiptir máli í lífinu, hitt ræða þeir af innlifun, fiska og frægar tökur. Og kannski stundum fótbolta. Stórtíðindi og meginatriði eru óorðuð, eða í mesta falli sögð nokkrum orðum. Pólitík og þjark á ekki heima í slíkum ferðum, en ef leiða þarf manni eitthvað fyrir sjónir er það gert að hætti fornmanna og spakvitringa, "hverju reiddust goðin?".
Á leiðinni í veiði urðu þau stórtíðindi að Hæstiréttur felldi dóm um lögleysu gegnistryggðra lána, svo veiðimennirnir töluðu um fátt annað þegar þeir hittust en veiðilega staði og fræga fiska. Eftir þriggja daga tal um fiska og flugur og fræga veiði áræddi ég að stynja upp úr eins manns hljóði í málhvíld veiðimannanna einhverju um hvað hann væri rosaleg tíðindi þessi dómur. Vissum við nokkuð hvað þetta þýddi? Þögn. Svo mælti einn "Hvernig hefði dómurinn fallið áður en bankarnir hrundu?" Svo var urriði aftur kominn á dagskrá.
Nekt íslansvitleysunnar verður sífellt napurri. Sagt er að "tugir, ef ekki hundruð" lögfræðinga hafi skoðað lánveitingar bankanna án þess að finna þeim nokkuð til vansa. Því verr gefast þeirra ráð sem fleiri koma saman gæti maður sagt. Hæstarétti reyndist ekki erfitt að kveða upp dóminn, það þurfti ekki annað en að lesa lögin. Málatilbúningur bakanna var útúrsnúningur. Ekki bara að vörn þeirra væri útúrsnúningur, það eru varnir í vonum málum sennilega alltaf, heldur var sjálf gerðin frá upphafi útúrsnúningur úr lögum, sem nokkuð afdráttarlaust banna gengistryggingu lána og "tugir ef ekki hundruð" lögfræðinga gátu ómögulega séð neitt galt við. Ekki á þeim tíma. En einhver sagði í útvarpinu sér til afökunar að menn yrðu að skilja að á þessum tíma hefði "ríkt hér ákveðið ástand". Svo það var ekki nema von að veiðmanninum hryllti að sögn við að svara eigin spurningu.
21. júní 2010
10. júní 2010
Falleg jurt á sér fagra rót
Ég sé af fréttum að eldhúsdagur á Alþingi er haldinn í skugga fíflabyltingarinnar. Stjórnmálamenn sjá, sumir altént, að hirðfíflin, jogglararnir, gígjusláttarmennirnir og leikarararnir geta hæglega sópað þeim út af þingi. Rök kjósendanna verða þau sömu og í Reykjavík um daginn: þetta fólk getur ekki verið verra en hinir. Gæti meira að segja verið miklu betra.
Ekki kaus ég Besta, kemur væntanlega ekki á óvart, en mér var þó orðið rórra þegar ég nokkru fyrir kosningar gerði mér grein fyrir að Besti flokkurinn væri bjórlíki. Hér birtist þessi dásamlega aðferð Íslendinga við að rísa upp og mótmæla með því að leggjast niður. Við leggjumst niður til að mótmæla, kveljum okkur sjálf og niðurlægjum. Flykkjumst á nýopnaðar knæpur og hellum okkur full af kláravíni í pilsner. Þjóð á ímyndunarfylleríi þar sem ímyndunin er bjór en raunverueikinn þetta íslenska kláravín sem henni er skammtað. Nú er ímyndunin almennileg stjórnmál en raunveruleikinn íslensk stjórnmál hrein og ómenguð í boði grínistanna. Okkur er boðið að drekka spillinguna, blekkingarnar, sýndarmennskuna, hugsjónaleysið eins og kláravín út í það þunna öl sem hin formlegu stjórnmál eru.
Menn nefna meðferð. Alþingi sé í ruglinu og þurfi að fara í meðferð segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Og ég tek ofan fyrir henni mína lúnu húfu. Stjórnmál sem orðin eru viðskila við fólkið eru engin stjórnmál heldur hið þveröfuga, þau stuðla að niðurrifi samfélagsins. Pólitíska hrunið, sem nú blasir við er eðlileg og reyndar æskileg afleiðing kerfishruns Íslands. Kannski dreymdi einhverja að þeir slyppu en hinir myndu hrynja, en svo einföld er hvorki verkfræðin né lífið. Stjórnmál eru kerfi þar sem eitt tekur mið af öðru. Fíflabyltingin sýnir með satírunni hvernig hægt er að afhjúpa stjórnmálin með því að stilla saman orðum og gerðum hlið við hlið. Eins og reyndar hægt er að afhjúpa alla sem ganga á lagið að fá fólk til að halda að þeir séu, frekar en að vera. Það er gömul saga og ný.
Mikilvægasta spurningin nú er þrátt fyrir allt ekki sú margtuggða, hver bar ábyrgð, heldur hver getur getur vísað veginn. Það verður ekki gert með því einu að segjast vera öðruvísi, heldur með því að vera öðruvísi, en geta samt vísað veginn. Sá sem er tilbúinn að vera meiri en hann sýnist getur það.
Ekki kaus ég Besta, kemur væntanlega ekki á óvart, en mér var þó orðið rórra þegar ég nokkru fyrir kosningar gerði mér grein fyrir að Besti flokkurinn væri bjórlíki. Hér birtist þessi dásamlega aðferð Íslendinga við að rísa upp og mótmæla með því að leggjast niður. Við leggjumst niður til að mótmæla, kveljum okkur sjálf og niðurlægjum. Flykkjumst á nýopnaðar knæpur og hellum okkur full af kláravíni í pilsner. Þjóð á ímyndunarfylleríi þar sem ímyndunin er bjór en raunverueikinn þetta íslenska kláravín sem henni er skammtað. Nú er ímyndunin almennileg stjórnmál en raunveruleikinn íslensk stjórnmál hrein og ómenguð í boði grínistanna. Okkur er boðið að drekka spillinguna, blekkingarnar, sýndarmennskuna, hugsjónaleysið eins og kláravín út í það þunna öl sem hin formlegu stjórnmál eru.
Menn nefna meðferð. Alþingi sé í ruglinu og þurfi að fara í meðferð segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Og ég tek ofan fyrir henni mína lúnu húfu. Stjórnmál sem orðin eru viðskila við fólkið eru engin stjórnmál heldur hið þveröfuga, þau stuðla að niðurrifi samfélagsins. Pólitíska hrunið, sem nú blasir við er eðlileg og reyndar æskileg afleiðing kerfishruns Íslands. Kannski dreymdi einhverja að þeir slyppu en hinir myndu hrynja, en svo einföld er hvorki verkfræðin né lífið. Stjórnmál eru kerfi þar sem eitt tekur mið af öðru. Fíflabyltingin sýnir með satírunni hvernig hægt er að afhjúpa stjórnmálin með því að stilla saman orðum og gerðum hlið við hlið. Eins og reyndar hægt er að afhjúpa alla sem ganga á lagið að fá fólk til að halda að þeir séu, frekar en að vera. Það er gömul saga og ný.
Mikilvægasta spurningin nú er þrátt fyrir allt ekki sú margtuggða, hver bar ábyrgð, heldur hver getur getur vísað veginn. Það verður ekki gert með því einu að segjast vera öðruvísi, heldur með því að vera öðruvísi, en geta samt vísað veginn. Sá sem er tilbúinn að vera meiri en hann sýnist getur það.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)