20. apríl 2010

Stjórnmál á krossgötum

Ég ætla að skáka í því skjóli að eins sé um pólitík og fótbolta, sem þeir mega tala um af mestum innblæstri, sem aldrei hafa komið bolta í mark. Yfirlýsing Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á fundi Samfylkingar á dögunum sætti miklum pólitískum tíðindum, svo ég í þokkabót noti djargonið. Ég er ekki að velta fyrir mér hinni persónulegu játningu, sem maður skyldi ekki gera lítið úr, heldur pólitískri hlið ávarpsins. Hún talaði til flokksins og kjósenda hans, en var ekki að biðja þjóðina afsökunar, eins og réttilega hefur verið bent á og gagnrýnt. Að því leyti er afstaða hennar óbreytt, eins og hún birtist í viðtali nokkrum dögum fyrir skýrslu og víðar. Hitt var nýtt, að nú segir hún afdráttarlaust að það hafi verið mistök að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokki, því það voru svik við hugmyndafræði og baráttumál Samfylkingarinnar og hennar sjálfrar. Siðbótar- og lýðræðishugsjónin var svikin með þeirri blekkingu að hægt væri að deila völdum með Sjálfstæðisflokki, ef ég skildi orð hennar rétt.


Hér hafa því þau tíðindi orðið, að annars vegar er útilokað að Samfylking verði með Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn í fyrirsjáanlegri framtíð og hins vegar víkur Ingibjörg Sólrún, fyrrum formaður, úr vegi fyrir breyttri stefnu Samfylkingarinnar. Kom enda þegar í kjölfarið dánartilkynning Blairisma Samfylkingarinnar, undirrituð af Jóhönnu. Munið að það var jú bara fyrir nokkrum vikum, að samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks virtist hraðbyri nálgast vegna meltingartruflana í villta vinstri rískisstjórnarinnar, en hver vill mynda stjórn með Sjálfstæðismönnum núna, rétt upp hönd.

Játning Ingibjargar Sólrúnar afhjúpar þversögn í Samfylkingunni. Ef hún var stofnuð til að verða andstæða Sjálfstæðisflokksins, þá átti hún sér um leið fyrirmynd í sama flokki, sem hagsmunabandalag um að koma félagshyggjufólki til valda. Þannig er Samfylkingin er að sínu leyti birtingarmynd yfirburða Sjálfstæðisflokksins í íslensku samfélagi, þar sem aðrir stjórnmálaflokkar eru skilgreindir út frá afstöðunni til þessa risaflokks.

Nú hrinur þessi gamli Sjálfstæðisflokkur hefur Ingibjörg Sólrún líklega gert sér grein fyrir og við tekur sögulegt uppgjör, sem á íslenskan mælikvarða verður sambærilegt við uppgjör sósíalistanna við Sovét á sínum tíma. Sennilegast verður línan dregin við valdatöku Davíðs og talað um uppgjör við Davíðstímann, með réttu eða röngu, eins og hann sjálfur segir um það sem honum er eignað í pólitík. En um leið og risinn fellur þurfa allir sem miðað hafa sig við hann á nýju sjálfi að halda og lærdómur Samfylkingarinnar, sem fólst í játningu Ingibjargar Sólrúnar, er að sá sem ætlar að umbylta kerfinu verður að standa utan við það. Nú kemur í ljós hvort Samfylkingin hafi í raun og veru viljað umbylta kerfinu, því ef svo er tekur hún, eða það stjórnmálaafl sem af henni leiðir, forystuna í íslenskum stjórnmálum. Ef ekki, verður reist stytta af Ólafi Thors á Austurvelli og vinstrið jórtrar sínar tuggur áfram án þess að trufla athafnaskáldin.

13. apríl 2010

Gilitrutt

Gærdagurinn var eftir allt dagur vonar og það var beinlínis fallegt að upplifa hvernig skýrslunni miklu var fagnandi tekið. Þó ekkert væri þar sagt annað en það sem við vissum, var samt það sagt, sem við aldrei höfðum heyrt talað um. Ætti ég að endursegja alla skýrsluna í einu orði, segði ég "Gilitrutt", því eftir langvarandi örvinglun hefur rannsóknarnefndin loks gefið okkur nafn ófreskjunnar og þess vegna var dagurinn í gær dagur vonar. Nú er það okkar að ávarpa skessuna sjálfa, en gerum við það, fellur hún dauð.

Margir óttuðust fyrir fram að skýrslan yrði langhundur á lagamáli, barinn saman af varnöglum og gæfi tækifæri til endalausra hártogana og túlkana. En í ljós kom vandlega unnin skýrsla og vel skrifuð vegna þess að hún er vel hugsuð. Höfundar skýrslunnar hafa skilið mikilvægi þess að hafa sprokið í lagi. Þegar vaðið er yfir mann á skítugum skónum segir maður ekki við delikventinn, að margt bendi til þess að skórnir hans séu ekki tillhlýðilega hreinir né sólarnir nægjanlegja mjúkir. Þetta hefur nefndin skilið, skilið að skyldur hennar voru gagnvart fólkinu, ekki kerfinu. Grundvallaratriðið núna er að umræðunni verði ekki stjórnað frá valdahreiðrum stjórnmála og viðskipta heldur taki almennir borgarar frumkvæðið, heiðarlegt fólk sem vill bæta samfélagið. Grundvallaratriði er að ráðast á ógnina, rjúfa bannhelgi orðanna og nefna hlutina sínu réttu nöfnum. Keisarinn er nakinn segir í skýrslunni.

Fyrsta skerfið er samt inn á við, eins og alltaf. Við verðum að vera heiðarleg gagnvart okkur sjálfum og eigin ábyrgð, en þar með talin er nefnilega ábyrgð fylgispektar og auðtrúar. Hvort er mikilvægara að verja þína menn, þinn flokk, þitt stolt eða hreinsa út ógeðið í samfélaginu? ("Ógeðslegt" sagði Styrmir í skýrslunni, af öllum mönnum en má reyndar gerst þekkja undirheima hvítflibbanna) Og hvort er mikilvægara að þóknast þeim sem borgar þér eða standa með samfélaginu sem þú ert hluti af? Fyrst þegar þessum spurningum hefur verið svarað rétt gerist það sem allt venjulegt fólk þráir, að gerendur hrunsins sæti réttlátri ábyrgð og að nýjir siðir verði teknir upp. Og þetta er hvorki flókið né fjarlægt þegar allt kemur til alls. Ef við öll í sameiningu höfnum því gamla: fólkinu, vinnubrögðunum og viðhorfunum sem lýst er greinilega í skýrslunni, þá hrynur gamla kerfið á skömmum tíma og nýtt tekur við. Auðvitað ekki himnaríki, heldur annað mannleg kerfi, en eitthvað venjulegra og heilbrigðara en þetta ógeðslega.

Svo til upprifjunar í lokin, þá gerðist það í fyrndinni að húsmóðir ein ung að árum sem gifst hafði á bæ undir Eyjafjöllum reyndist bæði duglaus og dáðlaus þegar til átti að taka. Hún samdi svo við ófrýnilega kerlingu sem birtist á bænum um að vinna alla tóvinnu vetrarins fyrir sig og hafði engar áhyggjur af því að þurfa vinna sér það til lífs að þekkja nafn hennar um vorið. En þegar örlagastundin nálgaðist tók hún að örvænta, en var svo heppin að eiga bónda sem hafði séð og heyrt Gilitrutt í gegn um glufu á kletti, þar sem skessan sat við vefstólinn og hlakkaði yfir ráðaleysi húsmóður. Hann skrifaði nafnið á miða og þessi miði bjargaði húsmóður á þeirri stundu, að hún var við það að drepast úr hræðslu frammi fyrir skessu, sem hvorki hét Signý né Ása heldur Gilitrutt. Það þurfti ekki lengri skýrslu. En niðurlag sögunnar er það sem gefur vonina, því eftir þessa atburði breyttist húsmóðir algerlega og varð bæði iðin og stjórnsöm, segir sagan.