Hér hafa því þau tíðindi orðið, að annars vegar er útilokað að Samfylking verði með Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn í fyrirsjáanlegri framtíð og hins vegar víkur Ingibjörg Sólrún, fyrrum formaður, úr vegi fyrir breyttri stefnu Samfylkingarinnar. Kom enda þegar í kjölfarið dánartilkynning Blairisma Samfylkingarinnar, undirrituð af Jóhönnu. Munið að það var jú bara fyrir nokkrum vikum, að samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks virtist hraðbyri nálgast vegna meltingartruflana í villta vinstri rískisstjórnarinnar, en hver vill mynda stjórn með Sjálfstæðismönnum núna, rétt upp hönd.
Játning Ingibjargar Sólrúnar afhjúpar þversögn í Samfylkingunni. Ef hún var stofnuð til að verða andstæða Sjálfstæðisflokksins, þá átti hún sér um leið fyrirmynd í sama flokki, sem hagsmunabandalag um að koma félagshyggjufólki til valda. Þannig er Samfylkingin er að sínu leyti birtingarmynd yfirburða Sjálfstæðisflokksins í íslensku samfélagi, þar sem aðrir stjórnmálaflokkar eru skilgreindir út frá afstöðunni til þessa risaflokks.
Nú hrinur þessi gamli Sjálfstæðisflokkur hefur Ingibjörg Sólrún líklega gert sér grein fyrir og við tekur sögulegt uppgjör, sem á íslenskan mælikvarða verður sambærilegt við uppgjör sósíalistanna við Sovét á sínum tíma. Sennilegast verður línan dregin við valdatöku Davíðs og talað um uppgjör við Davíðstímann, með réttu eða röngu, eins og hann sjálfur segir um það sem honum er eignað í pólitík. En um leið og risinn fellur þurfa allir sem miðað hafa sig við hann á nýju sjálfi að halda og lærdómur Samfylkingarinnar, sem fólst í játningu Ingibjargar Sólrúnar, er að sá sem ætlar að umbylta kerfinu verður að standa utan við það. Nú kemur í ljós hvort Samfylkingin hafi í raun og veru viljað umbylta kerfinu, því ef svo er tekur hún, eða það stjórnmálaafl sem af henni leiðir, forystuna í íslenskum stjórnmálum. Ef ekki, verður reist stytta af Ólafi Thors á Austurvelli og vinstrið jórtrar sínar tuggur áfram án þess að trufla athafnaskáldin.