Höfundur Hruneyjarsögu heldur áfram að leika sér að sögupersónum sínum eins og köttur að mús. Jafn ráðvilltar og alltaf klóra þær sér nú í hausnum eftir hinar tragikómísku kosningar. Samningsstaðan styrktist svo við stóra NEI-ið að Hollendingar og Bretar þora ekki að samingaborðinu og vofa íslensku lýðræðisbyltingarinnar, sem á eftir að velta um koll spilltu fjármálakerfi heimsins virðist hafa villst og hefur enn ekki komið fram í Færeyjum. Allt situr við sama og áður, það er bara klukkan sem bifast. Allt er kyrrt, allt er fast. Nú bíða menn að því er virðist eftir næsta kafla sögunnar, hinni grætilegu rannsóknarskýrslu.
En í dag birtist skyndilega persóna, sem margir er fylgjast grannt með Hruneyjassögu bjuggust við fyrir löngu. Hún gengur undir nafinu Alex Jurshevski, innheimtusérfræðingur hjá Recovery Patners. Með fangamarkið bróderaða í skyrtumansjetturnar, flaumósa amerískan talanda og sjálfstraust andskotans birtist hann í Silfri Egils og lítur út eins og Jón Gnarr. Það er ekki að spyrja að yndi höfundar á svörtum húmor. Jurshevski kom beint að efninu, meiri lántaka er Íslandi dauðadómur. Koss dauðans, Júdasarkoss. Nei, fylgið mér sagði skuldheimtumaðurinn. Ég þekki svona vandamál og tilbúinn til að leiðbeina ykkur. Ný lán fara bara beint í vasa einhverra jöklabréfahafa. Ekki borga. Segið bara að þeir hafi frosið fastir, þetta eru jú jöklabréf. Svo skuluð þið skera niður og spara og hugsa um það eitt að borga góðar skuldir. Þá koma fjárfestarnir með nýja peninga sagði Jurshevski, ameríski skuldheimtumaðurinn með Gnarrlúkkið.
En þetta hefur áður verið sagt í sögunni okkar, eins og minnugum kann að ráma í. Höfundurinn vill greinilega koma þessu til skila. Peningar hafa ekki minni. Peningar hafa enga samvisku. Það skiptir engu máli hvernig öðrum hefur vegnað í viðskiptum við mann sem þú treystir þér til að græða á. Peningar streyma um heiminn blóðugir, þvegnir eða heiðarlega svitastorknir án þess að fjárfestar fáist hið minnsta um lyktina af þeim og skuldheimtumenn ennþá síður. Það er bara til ein spurning í heiminum, er díllinn góður?
Og þarna var hann kominn maðurinn sem segir það sem allir vilja heyra. Þið þurfið engin lán. Yrðum við ekki útskúfuð þjóð með peninga fólks í jökulfrosti óbyggðanna og Ísland eitt allsherjar icesave? Nei, þvert á móti, sagði skuldheimtumaðurinn, ef þið ætlið að slá enn meiri lán til að gera upp gamlar skuldir verðiði útskúfuð af fjáfestum. Þá hverfur Jurshevski á braut og sést aldrei aftur. Hryllileg tilhugsun. Hann væri reiðubúinn til að leggja ríkinu lið og fjárfesta. I´m kicking the tires of this thing, sagði hann og átti við Ísland. Hann væri hingað kominn til að sparka í dekkinn á druslunni sagði hann. Er að pæla í að kaupa, ef honum hugnast díllinn.
Þarna var hann þá loksins kominn í eigin söguperónu, hinn ómissandi Nosferatu, Skrattinn sjálfur. En það má Andskotinn þó eiga, að hann kemur alltaf upp um sig, ef glöggt er hlustað. Kaldhæðni hrunsögunnar er hins vegar að láta þjóðernissinnaða hugsjónamenn í baráttu gegn heimskapítalsimanum ryðja hingað brautina fjárfestum með breið glott og fangamark á manséttunum.