10. apríl 2011

Endurtekið efni

Sagan um Æseif heldur áfram. Ég leyfi mér að birta endurtekið efni, pistil eða sögu, sem var skrifuð hér á bloggið 11.október 2009, en ekki birt fyrr en í janúar 2010. Hef stytt þetta hér.


Dag nokkurn í fyrra haust lá Range Rover á hvolfi á miðri götunni okkar. Út úr flakinu dró löggan strákinn í næsta húsi, ósáran en alveg útúrspíttaðan. Bíllinn karlsins á horninu hafði sýnilega orðið á vegi hans og karlfautinn lét dæluna ganga með svívirðingum yfir skelkaða nágranna mína, foreldra ökumannsins, sem komnir voru á vettvang. Eftir þetta er lífið í götunni ekki eins og áður.......

Því er ég að rifja þetta upp nú að ég heyrði fyrir skemmstu frá frænda mínum, sem þekkir náið til fjölskyldunnar, að þaðan sé fátt góðra frétta. Útistöður við karlinn á horninu vegna bílviðgerðarinnar hafa heltekið fólkið, og það virðist hafa fengið verkstæðisreikninginn á heilann. Stórfjölskyldan er komin í hár saman og hver höndin upp á móti annarri.... Allir keppast um að segjast vilja borga minna en hinir. Svo rífst þetta fólk og þráttar innbyrðis fram og til baka án niðurstöðu. Samt er þessi krossbölvaði viðgerðarreikningur ekki nema lítill hluti af öllu peningatapi þessa fólks. Það segist vilja standa í lappirnar með því að standa upp í hárinu á karlinum, en hugsar ekkert um að standa í lappirnar gagnvart sjálfu sér. Sonurinn hefur enn ekki verið látinn svara fyrir eitt eða neitt neitt. ........

Þau barma sér endalaust yfir örlögum sínum og fjölskyldunnar, en minnast ekki einu orði á neinn hinna sem tapað hefur fé og æru fyrir tilstilli sonarins.

Hér er um tvennt að ræða segir frændi. Annað hvort er þetta séræktað fjölskyldulægt siðleysi eða það er skömmin og sektarkenndin sem fær fólkið til að líta undan og loka augunum svo þau sjái ekki í eigin barm. Það forðast allir aðalatriðið. Allir hafa tapað fjársjóðum sínum, líka þeir sem allan tímann voru á móti þessum umsvifum. Þeir töpuðu sakleysi sínu þegar hinir töpuðu peningunum sínum.

Saman segist þetta fólk vera að verja efnahaglegt sjálfstæði fjölskyldunnar og stolt sitt, en sér ekki að með hegðun sinni fyrirgerir það sjálfstæði sínu og svívirðir heiðurinn. Það rís ekki undir verkefninu og ferst í storminum. Enginn vill láta neitt af hendi og því missa allir allt.

8. apríl 2011

Náttgagnabyltingin

Iscesavemálið er gagnbyltingin, gagnbylting þeirra sem urðu undir í búsáhaldabyltingunni. Með þessu málið hefur tekist að tvístra þjóðinni og egna henni saman í hatramman slag þar sem tilefnið er löngu orðið aukatriði, eins og venjulega.

Hrunið var stórviðburður, en hversu stórt er Icesave í því samhengi? Auðvitað ekki nema lítið brot, en heltekur okkur og ætlar að taka sér bólfestu meðal okkar. Icesave er sturlun þjóðarinnar, mál sem ekki er hægt að leysa, kosningar sem ekki er hægt að sigra.

Þetta eru ömurlegir dagar reiði og örvinglunar og það er eins og þræðirnir sem eiga að halda okkur saman séu að rakna, því þetta bölvaða mál hefur att okkur saman, spillt huga okkar og dregið úr okkur máttinn. Í þessu máli er innbyggður ómöguleiki, það er þraut sem hefur enga lausn. Við höfum verið blekkt. Við báðum um meiri völd og vildum fá að kjósa, en því var svarað með því að henda í okkur skítverki sem við aldrei gætum unnið. Og þetta er ekki þeim einum að kenna sem nú fitna eins og púkinn á ástandinu, heldur ekki síður þeim sem áttu að halda upp reglu. Það stendur enginn á prinsippum, menn óttast óreiðufólkið og brennuvörgunum er boðinn góður dagur.

Icesave er Náttgagnabyltingin. Þjóðinni er att saman, ekki með silfri sem kastað er yfir þingheim, heldur með því sem svett úr koppnum af efstu svölum yfir lýðinn. Menn líta hlandblautir hver á annan í fyrirlitningu og ásökun. Slagsmálin brjótast út. Það er sýning sem er meira að skapi fína fólksins á svölunum en hrun þeirra sjálfra, sem sýnt er á fjölunum.

Svo bætist við í hóp þeirra sem espa til slagsmálanna þegar hinir og þessir vilja eigna sér baráttuna. Þeir slást út af mér, segir hver skvísan af annarri. Ein útgáfan er að Íslendingar fórni sér til að mótmæla auðhyggju heimsins. Ekkert er eins fjarri lagi, Íslendingar fórna sér ekki, þó þeim finnist kannski allt í lagi að farast.

Hvernig kýs sá sem fyrirlítur Icesave og gengur hryggur til kosninga? Hann hugsar til þeirra sem skvetta úr koppunum sínum yfir þjóðina og ala á stríðinu. Á hverju byggir lýðhylli þeirra þessa stundina? Hún byggir á slagsmálunum sjálfum og þeir munu halda áfram að ausa úr koppum sínum yfir okkur svo lengi sem þeir geta, því annars missa þeir máttinn, þeir virðingarlausu menn.

X-já. Það bíða okkar mikilvægari verkefni.