23. maí 2010

Fíflabyltingin

Besti flokkurinn er ekki grínframboð, ekki lengur, heldur fíflaframboð. Grínframboð Jóns Gnarr var góð paródía á stjórnmálin, en þegar fíflinu er orðin fúlasta alvara tekur grínið að grána. Á því er reginmunur að vera í framboði til að koma skopstælingu á framfæri eða ætla eins og hinir að komast til valda.

Fíflið góða og vinsæla fann sem sagt upp á því einn daginn að skopstæla kónginn. Háðið var beitt og hitti svo vel í mark að múgurinn trylltist af fögunuði. Sætast þótti að sjá kónginn sitja reiðan og niðurlægðan undir narri fíflins án þess að mega rönd við reisa. Svo hrópaði einhver: "Fíflið fyrir konung, fíflið fyrir konung......." og brátt tóku allir undir, "fíflið fyrir konung...". Fíflið espasðist upp og gekk lengra og lengra í narri sínu að þykjast vera kóngurinn sjálfur. Og honum steig svo til höfuðs að fólkið hyllti hann, að á endanum rann hann sjálfur inn í eigið narr og varð þess fullviss að hann væri kóngurinn. En í þessu nýja hlutverki kunni fíflið auðvitað ekkert nema leika skopstælingu, frekar en endranær. Fíflakóngurinn varð skopstæling paródíunnar, plús fenginn úr tveimur mínusum. Það sem í vídeóinu hafði verið barn varð fatlað barn í raunveruleikanum. Það sem í vídeóinu hafði verið koss varð ástarjátning í raunveruleikanum, "mamma er eins og þú". Fíflið trúði því að meira gaman, meira grín væri stjórnmálskoðun. Aðferð sem leysi probblemm, öll probblemm.

Þegar döpur hjörtu fólksins fundu bylgjuna rísa, sem kallaði fíflið til konungstignar fannst þeim að þau gætu kastað syndum sínum á bak við sig með því að lyfta fíflinu í hásætið. Þau gætu bætt fyrir þátttöku sína í öllu bullinu með því að niðurlægja kónginn með fíflinu. Samt voru þau bara að gera það sama og alltaf, hrífast með þeim sem bauð ábyrgðarlaust líf. Nú vilja þau grína á daginn og grilla á kvöldin.

10. maí 2010

Draumur og ráðning

Mig dreymdi heimboð til fjölskyldu sem ég vissi að var fátæk og skuldum vafin. Hún bjó í íbúðarholuá ókennilegum stað í borginni. Fyrir utan stóð gamall lúxusbíll, bensínhákur með hestaflatölu heils afréttar. Brotin lukt og beyglað skott. Ég bankaði á dyrnar og var boðið inn. Anddyrið var þröngt og bætti ekki úr að reiðhjól, hlaupahjól, hjólabretti og pedalabílar barnanna lágu í gagnveginum. Undir kösinni glitti í rytjulega skó og slitin stígvél. Ofan á hrúguna höfðu ormarnir hent rifnum úlpugörmum sínum. Í stofunni gleypti amerískur hornsófi heimilsimenn og gest en flatskjár gnæfði andspænis og virtist ná upp í loft. Krakkarnir kútveltust í sófanum illa til hafðir og eftirlitslausir með nammiblandspoka á stærð við fótbolta. Fannst mér að fjarstýringin hlyti að liggja undir pullum því stöðugt skipti um stöðvar við hopp krakkanna, frá Al-Jazeera yfir í Cartoon Network yfir í fréttir á Samísku í norska ríkissjónvarpinu yfir í Leiðarljós, yfir í beina útsendingu frá krikketleik. Mér var nú boðið kaffi. Gekk húsfreyja fram í eldhús og upphófust ægileg hljóð, það hvein og nötraði eins og í ítalskri kaffivél með ónýta kvörn. Kom hún til baka með hið versta skólp í handmáluðum postulínsbolla. Þá var mér boðið að snæða, sem ég þáði. Stóð heimilsfaðir upp og tróð sér út á svalir, þar sem varla var stætt fyrir hann vegna risavaxins útigrills. Þegar hann lyfti lokinu dimmdi í stofunni. Svo kom hann til baka með matinn: eina sprungna pulsu makaða í einkennilegri tómatssósu svo minnti óhugnanlega á blóð.



Nú hef ég fengið þennan draum ráðinn af afar draumspökum manni. Honum fannst einsýnt að þetta boðaði enga hagræðingu í stjórnarráðinu og stórfelldan niðurskurð opinberrar þjónustu án vitrænnar forgangsröðunar.