Mér er til efs að margir hafi vitað hvað þeir voru að samþykkja þegar ákveðið var að stofna til ríkisstjórnar undir merkjum velferðarsamfélags að norrænni fyrirmynd. En hugmyndin var góð. Eftir hrun voru engir nema fífl, sem frjálsum huga vildu enn samfélag byggt á alvitrum, algóðum markaði. Það vilja þeir einir sem tala hagsmunnum einhverra eftirhreyta hins skelfilega tíma. Það var komið að öðrum að spreyta sig sagði þjóðin. Þá kom fram þessi hugmynd um norræna velferðarsamfélagið. Norðurlöndin stóðu af sér kreppuna og lifa betra lífi en önnur lönd. Þetta eru grannar, frænkur og vinir og ekkert nærtækara en að herða á pólitískri samfylgd við þessi lönd í rústunum eftir maníukast Íslands. Kratarnir, fjölmennastir á þingi eftir kosningarnar, fengu samt svo vænt högg á hægri síðuna, að Blairistarnir máttu þegja meðan norræna velferðarstjórnin var smíðuð. Manni fannst þá eins og þeir hlytu að vera manna spældastir í þessu ríkisstjórnarsamstarfi, að hvefa á vit forræðishyggju, skattlagningar og nostalgíu nægjuseminnar.
En þetta var auðvitað tóm vitleysa. Hvernig geta kratar annað en verið himinlifandi yfir hugmyndinni um norræna velferðamódelið? Þetta er hin erkikratíska hugmyndafræði. Íslenskir kratar eiga að þakka fyrir vinstrigræna leiðbeiningu inn á brautir hins norræna kratisma, með sinni forræðishyggju, skattlagningu og nægjusemi. En líka með sínum kapítalisma, frjálslyndi og einstaklingsfrelsi, sem er hluti af kokteilnum. Og síðast en ekki síst, sínum pragmatisma sem leitar samstarfs við önnur lönd, horfir á árangur frekar en eigið æruskinn og sér réttlæti og kjör í samhengi við raunveruleikann, en ekki ídealhugmyndina. Norrænu velferðarríkin eiga auðvitað að vera okkar fyrirmyndir og okkar bandamenn. Ekki Ameríka, ekki Kína, ekki Dubai, ekki Rússland, ekki Lúx., heldur Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Finnland og Færeyjar. Nágrannar okkar með velferðarpólitík, sem heimurinn öfundar. Við héldum okkur geta verið ein af þeim á sama tíma sem við sköruðum fram úr í frjálshyggju og skatthógværð. Betri en Svíþjóð í velferð, betri en Bandaríkin í auðferð. En svona er ekki lífið ekki í raun og uppúr rústum partýsins sem enginn vill borga kom ríkissjórnin tilbúin að framfylgja norrænu, skattdrifnu velferðinni.
En hér voru gerð hrikaleg mistök. Menn sváfu á verðinum. Alvöru vinstrisinnar vilja auðvitað ekki þetta auðvaldssull, sem norrænu ríkin hafa kokkað undir fölskum fána. Ríki sem mynda kúgunarbandalag með AGS gegn frændum sínum, láta réttlætið víkja fyrir hagtölum mánaðarins og mynda hiklaust bandalag með annarri eins birtingarmynd helvítis og Evrópusambandinu eiga enga samleið með okkur. Með mér.
Gamlir sölumenn Neistans, kaldastíðsjálkar úr austrinu, þjóðernissinnar og byltingarfólk þessa lands vilja enga andskotans norræna velferðarstjórn. Þau vilja fánann á loft og frekar þann versta.
10. janúar 2011
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)