10. nóvember 2010

Játningar uppgjafa þorskahermanns

Ég var þjóðrækið barn. Tók á móti handritunum með fánaveifu á Skothúsveginum. Fór með mótmælaspjald, "Davíð vinnur Golíat", gegn bretum í 50 mílna stríðinu og fylgdi herópinu um að gera aðsúg að sendiráðinu. Sökkti mér ofan í þjóðleg fræði kornungur, las byskupasögur og reyndi að læra romsu allra Skálholtsbiskupa frá upphafi, sport sem ég veit engan annan hafa reynt. Íslandssögu Þórleifs Bjarnasonar, sem kennd var í barnaskólunum þá, reyndi ég að læra í þaula, en hún loddi illa við mig. Þar var á ferðinni gamla Íslandssaga Jónasar frá Hriflu nánast óbreytt, nema stílgeld og talsvert stytt, með því að danahatur hafði verið fjarlægt.

Um það leyti sem ég varð stúdent var ég enn logandi þjóðernissinni og hefði sennilega skráð mig í átthagafræði, hefði sú grein verið kennd í Háskóla Íslands. Reyndar fannst mér næstum öll fög koma til greina, nema viðskipta- og rekstrarfög sakir andleysis og lítilmótleika. Og ég man eftir að hafa staðið í háværum orðaskiptum á þessum árum við menn sem hneygðust í átt að Evrópubandalaginu. Ekkert var fjarri mér og Ísland í Evrópubandalaginu. Fórna fullveldinu!


Áhugi á Íslandssögu fylgdi mér og ég hélt áfram að glugga í bækur og rit til að viðhalda þjóðrækninni. Það reyndist mér dýrkeypt. Sem sagt kemur það á daginn, ef þokkalega óbrjáluð sagnfræði er lesin, að farsæld Íslands í gegn um aldirnar, bæði efnahagsleg og menningarleg, byggir ævinlega á samskiptum við útlönd. Einangrun er vesöld og vesöld er einangrun. Viðskipi eru velsæld og velsæld eru viðskipti. Ég þurfti að beygja mig fyrir þessari niðurstöðu og það var ekki auðvelt. Fór í gegnum sorgarferli, eins og það er orðað nú. Ekki ósvipað, en þó talsvert þyngra og það var fyrir mig, gamlan Hagmeling, að sjá íslensku glímuna lúta í lægra haldi fyrir austurlensku náttsloppatogi og vindhöggahoppum.

Afstaða mín til umsóknar um aðild að Evrópusambandinu er lituð þeirri angurværð að hafa lagt upp sem harður andstæðingur, en orðið að sættast við að hafa lifað í blekkingu um dýrð hins sjálfstæða og óháða undralands í úthafi og hafa haldið, að það sem eitt sinn var hægt yrði alltaf hægt, jafnvel í heimi örustu breytinga.

Það er margt sagt um viðræðurnar við Evrópusambandið þessa dagana. Málflutningurinn á móti þeim verður æðisgengnari með hverjum deginum, eins og gerist þegar fólk finnur tímann renna sér úr greipum. Það sýnir þá innstu sannfæringu mótmælendanna, að þeir hafi þegar látið í minni pokann.

Ég ber viðingu fyrir þeirri afstöðu að vera á móti Evrópusambandsþátttöku, þó mér finnist baráttan gegn því að þjóðin fái að greiða atkvæði um samning bæði lágkúrleg, heimskuleg og vond. En sem eindreginn fylgismaður viðræðnanna og ekki ólíklegur fylgismaður samingsins, fyllist ég engu að síður dálítilli sorg yfir þeirri sameinginlegu vissu minni og andstæðinganna að Íslendingar segi Já innan skamms. Ég hefði kosið að svara spurningunni við betri aðstæður. Þegar allt kemur til alls, eins og málum er nú háttað á Íslandi, er innganga í ESB og tenging við evru hreinlega eini augljósi, skiljanlegi og gerlegi kosturinn í stöðunni. En ég segi hins vegar eins og svo margur annar, þetta hrun er bara ekki mér að kenna.